• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Áríðandi fundur með starfsmönnum Elkem Ísland og Klafa Úr verksmiðju Elkem Ísland á Grundartanga
25
Jan

Áríðandi fundur með starfsmönnum Elkem Ísland og Klafa

Í morgun fundaði formaður félagsins með trúnaðartengiliðum Elkem Ísland. Trúnaðartengiliðirnir eiga sæti í aðalsamninganefnd vegna kjarasamninga starfsmanna Elkem Ísland við Samtök atvinnulífsins.

Á fundinum var farið yfir þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin, en eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær þá hefur samninganefndin nú vísað kjaradeilunni til Ríkisáttasemjara. Nú hefur Ríkissáttasemjari boðað til fundar vegna kjarasamnings starfsmanna Elkem Ísland við Samtök atvinnulífsins og verður fundurinn haldinn í húsakynnum Ríkissáttasemjara næstkomandi föstudag.

Ákvörðun hefur verið tekin um að boða til fundar nk. fimmtudag með starfsmönnum en vegna fjölda starfsmanna þarf að halda fundinn í tvennu lagi. Verður fyrri fundurinn haldinn kl. 13 og sá seinni kl. 19. Báðir fundirnir verða haldnir á Gamla Kaupfélaginu.

Það var afar ánægjulegt að finna þann einhug sem ríkir í samninganefndinni vegna þeirrar deilu sem nú er komin upp. Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá var samninganefndin tilbúin að ganga frá samkomulagi um framlengingu á kjarasamningnum til 1. maí gegn eingreiðslu. Þessu tóku forsvarsmenn fyrirtækisins nokkuð jákvætt, en margt bendir til þess að Samtök atvinnulífsins hafi stoppað þetta mál alfarið af. Á þeirri forsendu er mjög líklegt að starfsmenn fyrirtækisins muni sýna fulla samstöðu og hörku við að ná fram sínum áherslum í komandi viðræðum. Eins og staðan er núna er það mat formanns að æði margt bendi til þess að það stefni í veruleg átök vegna þessarar deilu.

Rétt er að geta þess að starfsmenn Klafa munu einnig sitja þessa fundi á fimmtudaginn kemur. Klafi er þjónustufyrirtæki sem sér um upp- og útskipanir á Grundartanga og er í eigu fyrirtækjanna Elkem Ísland og Norðuráls. Þeir eru því í nákvæmlega sömu sporum og starsfmenn Elkem Ísland.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image