• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Gríðarleg samstaða og einhugur á meðal starfsmanna Úr verksmiðju Elkem á Grundartanga
27
Jan

Gríðarleg samstaða og einhugur á meðal starfsmanna

Rétt í þessu lauk fyrri samstöðufundi starfsmanna Elkem Ísland og Klafa en eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá stefnir í harða kjaradeilu vegna kjarasamnings áðurnefndra fyrirtækja.

Á fundinum gerði formaður Verkalýðsfélags Akraness, sem jafnframt er formaður samninganefndarinnar, yfir 50 starfsmönnum grein fyrir þeirri grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í kjaradeilu starfsmanna við Samtök atvinnulífsins. Á fundinum ríkti gríðarlegur einhugur og samstaða á meðal starfsmanna um að sýna fulla hörku í komandi kjaraviðræðum. Boðað hefur verið til fundar samninganefndarinnar með Samtökum atvinnulífsins hjá Ríkissáttasemjara á morgun og mun þá koma í ljós hvort hægt verður að leysa deiluna án átaka eða ekki.

Það var ánægjulegt að sjá þá miklu samstöðu sem ríkti á meðal starfsmanna og kom fram í máli fundarmanna að þeir eru klárir til að mæta því ábyrgðarleysi sem Samtök atvinnulífsins hafa sýnt íslenskum launþegum að undanförnu af fullri hörku. Það er æði margt sem bendir til þess að það stefni í vinnustöðvun hjá áðurnefndum fyrirtækjum ef ekki næst niðurstaða á fundinum á morgun.

Nýafstaðinn samstöðufundur starfsmanna Elkem og Klafa samþykkti ályktun en þeirri ályktun segir m.a.:

"Það er svívirða af verstu sort af hálfu Samtaka atvinnulífsins að ætla að taka kjarasamningsbundinn rétt launafólks í herkví í óákveðinn tíma vegna ágreinings útvegsmanna við stjórnvöld vegna fiskveiðistjórnunarkerfisins." Einnig segir: "Fundurinn hafnar alfarið samræmdri launastefnu sem virðist byggjast á þriggja ára samningi með afar hófstilltum launahækkunum, algjörlega óháð getu hverrar atvinnugreinar fyrir sig. Það liggur fyrir að rekstrarskilyrði útflutningsfyrirtækja hafa verið afar góð um alllanga hríð vegna gengisfalls íslensku krónunnar. [...] Fundurinn lýsir yfir furðu sinni varðandi það miskunnarlausa ábyrgðarleysi Samtaka atvinnulífsins að ætla að stefna rótgrónum stöðugleika stóriðjufyrirtækja á Grundartanga í stórhættu vegna ágreinings um fiskveiðistjórnunarkerfið."

Ályktunina í heild sinni má lesa hér.

Seinni samstöðufundur starsfmanna Elkem og Klafa verður haldinn kl. 19 í kvöld og vonandi verður sami einhugurinn og samstaðan ríkjandi á þeim fundi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image