• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
02
Jun

Sérkjaramenn Norðuráls fá ekki eingreiðslu upp á 150 þúsund krónur, málið fer fyrir dóm

Rétt í þessu var að ljúka fundi sem formaður Verkalýðsfélags Akraness átti með mannauðsstjóra Norðuráls, Rakel Heiðmarsdóttur, og lögmanni fyrirtækisins, Árna Vilhjálmssyni. Gengið var frá kjarasamningi við fyrirtækið ekki alls fyrir löngu, kjarasamningi sem gaf starfsfólki góðar launahækkanir enda var hann samþykktur með 85% atkvæða.

Hins vegar bárust formanni þau válegu tíðindi að fámennur hópur starfsmanna sem eru svokallaðir sérkjaramenn en tilheyra margir hverjir samt sem áður stéttarfélögunum, hafi ekki fengið umsamda eingreiðslu að fjárhæð 150.000 krónur eins og aðrir starfsmenn. Þetta gerði Verkalýðsfélag Akraness alvarlegar athugasemdir við og á þeim forsendum var þessi fundur í dag. Þau rök sem Verkalýðsfélag Akraness lagði fram í dag eru að mati formanns alveg hvellskýr, að fyrirtækinu ber að greiða þessa umræddu eingreiðslu upp á 150 þúsund krónur. Félagið mun fara með þetta mál fyrir dóm til að innheimta þessa eingreiðslu því lögmaður fyrirtækisins féllst ekki á rök félagsins.

Í sérkjarasamningi þessara starfsmanna sem um ræðir er kveðið á um að það sem ekki er getið um í sérkjarasamningnum skuli gilda hinn svokallaði aðalkjarasamningur Norðuráls við stéttarfélögin. Sérkjaramenn hafa ætíð fengið allar launahækkanir sem um hefur verið samið frá 1998 og á þeirri forsendu er rík hefð fyrir því hvernig þetta hefur verið framkvæmt. Þessu til viðbótar voru sumir sérkjaramenn á kynningarfundum um gerðan kjarasamning og einnig á kjörskrá og greiddu atkvæði um samninginn. Verkalýðsfélag Akraness hefur ákveðið að boða sérkjaramenn til fundar á mánudaginn næstkomandi klukkan 19 á Gamla kaupfélaginu þar sem farið verður yfir þessi mál og önnur mál sem einnig eru grafalvarleg og lúta að samningum sérkjaramanna.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image