• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
13
Oct

Lögmaður VLFA með á fyrsta samningafundi við Norðurál

Formenn þeirra félaga sem eiga aðild að kjarasamningi Norðuráls hittust í morgun ásamt trúnaðarmönnum. Tilefni fundarins var að skipa viðræðunefnd sem mun vera í forsvari í komandi samningaviðræðum við Norðurál. Viðræðunefndin er þannig skipuð að allir formenn þeirra stéttarfélaga sem eiga aðild að kjarasamningum munu vera í viðræðunefndinni ásamt aðaltrúnaðarmanni Norðuráls. Þá var einnig ákveðið að hafa lögmann með á fyrsta samningafundinn sem verður mánudaginn 18. október nk. Á þeim fundi verður rætt um gildissvið samningsins og er það skýlaus krafa stéttarfélaganna og trúnaðarmanna að kjarasamningur Norðuráls verði lágmarkssamningur á athafnasvæði Norðuráls. 

Eins og áður sagði verður lögmaður með á fyrsta fundinum og er það lögmaður Verkalýðsfélags Akraness  Ingólfur Hjartarson hrl. Lögmaður VLFA hefur verið að skoða hvort það hafi verið rétt staðið að úthýsingu starfa í Íslenska járnblendifélaginu og hvort það standist kjarasamning ÍJ. Það er okkar mat  að svo sé ekki.  VLFA er að vinna í þessum málum og ekki ólíklegt að leitað verði til félagsdóms með málið.  Við munum  líka skoða þá verktakastarfsemi sem er komin á svæðið, það er ekkert eftirlit hvað sé verið að greiða starfsmönnum í laun. Komið hefur í ljós að verktakinn sem sér um súrálslosunina hefur ekki greitt til stéttarfélaganna af sínum starfsmönnum.  Þó svo að það komi skýrt fram í samningi sem Klafi ehf. gerði við umræddan verktaka, að hann ætti að greiða eftir gildandi kjarasamningum stéttarfélaganna. Þrátt fyrir óskir aðaltrúnaðarmanns Norðuráls sem og formanns Verkalýðsfélags Akraness, um aðgang að launaseðlum þeirra starfsmanna sem vinna hjá verktökum á svæðinu hefur því alfarið verið hafnað. Það sem er að gerast á Grundartangasvæðinu er alls ekki svo ólíkt því sem er að gerast í Sólbaksdeilunni. Atvinnurekendur eru að reyna eftir öllum leiðum að lækka rekstrarkostnað og bitna þær aðgerðir alltaf harðast á verkamönnum. Sótt er að hreyfingunni úr öllum áttum þessa daganna, en gott er til þess að vita að verkalýðshreyfingin ætlar ekki að láta valta yfir sig í þessum málum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image