• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
07
May

Stendur ekki til að breyta stjórnarfyrirkomulagi í lífeyrissjóðunum af hálfu ASÍ

Það er greinilegt að það ríkir mikil reiði á meðal hins almenna sjóðsfélaga í lífeyrissjóðunum vítt og breitt um landið. Á ársfundi lífeyrissjóðsins Gildi var töluverð uppákoma þar sem reiðir sjóðsfélagar kröfðust afsagnar stjórnar vegna mikils taps sjóðsins og nú síðast í gær var töluverð reiði hjá sjóðsfélögum á ársfundi lífeyrissjóðsins Stapa en þar var krafist afsagnar framkvæmdastjórans vegna þess að gleymst hafði að lýsa 4 milljarða króna kröfu sem sjóðurinn átti.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness skilur þessa gríðarlegu reiði á meðal hins almenna sjóðsfélaga fyllilega enda er það mat hans að stjórnir lífeyrissjóða og stjórnendur þeirra eigi að axla ábyrgð og segja af sér. Í gær birtist grein eftir Vilhjálm Egilsson þar sem hann fer yfir lífeyrissjóðina og þá gagnrýni sem á þeim hefur dunið og kom fram í hans máli að oft væri þetta ómálefnaleg gagnrýni. Hann segir til að mynda á einum stað að sér í lagi hafi sjóðir á vegum Samtaka Atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar orðið fyrir gagnrýni sem oft hafi verið ómálefnalegt gaspur eða beinlínis rógburður. Samkvæmt Viðskiptablaðinu þá kemur fram að Gildi lífeyrissjóður hefur tapað 23 milljörðum króna frá bankahruninu og því spyr formaður sig: Er óeðlilegt að sjóðsfélagar geri alvarlegar athugsemdir við slíkt tap? Rétt er að minna á að sjómenn í Verkalýðsfélagi Akraness eru að greiða í lífeyrissjóðinn Gildi.

Verkalýðsfélag Akraness hefur barist fyrir stórauknu lýðræði við stjórnarval í lífeyrissjóðunum og lagði eins og frægt varð fram tillögu á ársfundi ASÍ, tillögu sem gekk út á það að allir stjórnarmenn yrðu kosnir beinni kosningu af sjóðsfélögum og hætt yrði með helmingaskipti verkalýðshreyfingarinnar og Samtaka Atvinnulífsins. Þessi tillaga var eins og áður hefur komið fram kolfelld á ársfundinum en samþykkt var að efna til stefnumótunarfundar um lífeyrissjóðsmál. Nú liggja fyrir drög frá Alþýðusambandi Íslands um stjórnkerfi lífeyrissjóðanna og það er dapurlegt til þess að vita að í þeim drögum er gert ráð fyrir svokölluðum helmingaskiptum stjórnarmanna áfram. Með öðrum orðum, það á ekki að auka lýðræði við stjórnarval í lílfeyrissjóðunum.

Það er alveg klárt mál að Verkalýðsfélag Akraness mun halda áfram að berjast fyrir því að það verði sjóðsfélagarnir sjálfir sem kjósi stjórnarmennina og stýri sjóðunum sjálfir. Enda eru sjóðirnir eign sjóðsfélaganna og greiðslur í sjóðina eru kjarasamningsbundin réttindi sem áunnist hafa á liðnum árum og áratugum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image