• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
10
Mar

Fundur um skipulagsmál ASÍ

Í gær var haldinn fundur um skipulagsmál Alþýðusambands Íslands á Hótel Hamri, en Alþýðusamband Íslands stendur nú fyrir fundarherferð þar sem fundað er með öllum aðildarfélögum ASÍ um skipulagsmál.

Fundinn í gær sátu fulltrúar frá Verkalýðsfélagi Akraness, Stéttarfélagi Vesturlands og Stéttarfélagi Snæfellinga. Grétar Þorsteinsson, fyrrverandi forseti ASÍ og Magnús Norðdahl, lögmaður fóru yfir núverandi skipulagsmál ASÍ og óskuðu eftir því við fundarmenn hvort þörf væri á að breyta skipulagi Alþýðusambands Íslands. 

Unnið var í hópavinnu á fundinum og komu fjölmargar hugmyndir fram, m.a. kom fram ein hugmynd sem lýtur að því að forseti ASÍ verði kosinn beinni kosningu af öllum félagsmönnum ASÍ í allsherjarkosningu. Núverandi fyrirkomulag er með þeim hætti að forseti ASÍ er kosinn á ársfundum sambandsins, en það var greinilegt á fundinum í gær að fólk telur fulla þörf á að breyta þessu fyrirkomulagi sem væri fólgið í mun lýðræðislegra kjöri en nú er.

Það er skoðun formanns Verkalýðsfélags Akraness að forseti ASÍ þurfi að hafa gott félagslegt umboð og með því að kjósa forsetann í allsherjarkosningu á meðal allra félagsmanna þá væri hann svo sannarlega með gott umboð frá sínum félagsmönnum.

Það þarf einnig að ríkja góð sátt um forsetann og á þeirri forsendu er þessi hugmynd mjög álitleg.

Einnig kom fram á fundinum að gerð kjarasamninga verði alfarið áfram í höndum stéttarfélaganna og hlutverk ASÍ snúi meira að samskiptum við ríkisvaldið.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image