• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
11
Mar

Þokast lítið áfram

Í gær var haldinn þriðji fundurinn vegna kjaradeilu Norðuráls undir handleiðslu ríkissáttasemjara. Í heildina hafa nú verið haldnir 18 samningafundir vegna þessarar kjaradeilu. Fyrsti samningafundurinn var haldinn í lok október sl. þannig að samningaviðræður hafa nú staðið yfir í fjóra og hálfan mánuð. Það verður að segjast eins og er að niðurstaðan er frekar rýr fram til þessa.

Formanni félagsins hefur fundist vanta töluvert upp á samningsvilja af hálfu forsvarsmanna Norðuráls til þessa, en ber hins vegar þá von í brjósti sér að þeir fari að skynja að það séu engar forsendur fyrir því að starfsmenn Norðuráls njóti ekki sömu kjara og starfsbræður þeirra í Alcan í Straumsvík.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur afkoma fyrirtækisins allt frá stofnun þess verið með glæsibrag og hefur fyrirtækið skilað 37 milljörðum í hagnað frá árinu 1998 til 2008. Sem dæmi þá skilaði fyrirtækið mestum hagnaði allra fyrirtækja á Íslandi á árinu 2008 eða sem nemur 16 milljörðum. Árið 2008 var heildarvelta Norðuráls rúmir 47 milljarðar og af því var eins og áður hefur komið fram 16 milljarða hagnaður.

Á árinu 2009 var heildarveltan skv. fréttum 58 til 59 milljarðar. Þannig að það er æði margt sem bendir til þess að hagnaður Norðuráls á síðasta ári hafi verið upp undir 20 milljarða króna. Á þessari forsendu og þeirri bláköldu staðreynd að launakjör starfsmanna Norðuráls eru lakari um tugi þúsunda á mánuði í sumum tilfellum fyrir sama vinnutíma, mun samninganefnd stéttarfélaganna sýna fulla hörku í því að launakjör starfsmanna Norðuráls verði jöfnuð í eitt skipti fyrir öll við Alcan í Straumsvík.

Ríkissáttasemjari hefur boðað til næsta fundar á mánudaginn kemur, og einnig óskaði sáttasemjari eftir að deiluaðilar myndu skoða nokkur atriði fram að þeim fundi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image