• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
16
Mar

Næsti samningafundur á föstudaginn

Í gær var haldinn enn einn fundurinn hjá Ríkissáttasemjara til lausnar á kjaradeilu vegna starfsmanna Norðuráls. Það er mat formanns að lítið hafi þokast áfram hvað varðar aðalmálið sem er launaliðurinn. Vissulega er verið að skoða önnur ágreiningsatriði og reynt að finna lausn á þeim.

Krafa samninganefndar stéttarfélaganna er að kjör starfsmanna Norðuráls verði með sambærilegum hætti og gerist hjá Alcan í Straumsvík, en til þess að það takist þurfa laun starfsmanna að hækka um tugi þúsunda á mánuði. Rétt er að benda á að grunnlaun byrjanda eru einungis rúmar 167.000 krónur hjá verkamanni.

Önnur rök sem samninganefndin hefur haldið hátt á lofti er góð staða Norðuráls og eins og komið hefur fram hér á heimasíðunni þá hefur Norðurál skilað hagnaði nánast öll árin frá því fyrirtækið hóf starfssemi 1998 og heildarhagnaður fyrirtækisins til ársins 2008 nemur upp undir 36 milljörðum króna. Þar af var hagnaðurinn 16 milljarðar árið 2008, en þá var álverðið nokkuð hagstætt eða 2.665 dollarar tonnið.

Nú kveður hins vegar við að forsvarsmenn Norðuráls segja að fyrirtækið hafi verið rekið með tapi á síðasta ári. Formanni félagsins finnst það skjóta skökku við að slíkt hafi gerst, sérstaklega í ljósi þess að meðalverð á áli í fyrra var rétt tæpir 1.700 dollarar. Í byrjun ársins 2009 gerðist það hins vegar að álverðið fór niður í 1.275 dollara. Þá var í fréttum 19. nóvember 2009 haft eftir Mike Bless, fjármálastjóra Century Aluminium, móðurfélags Norðuráls, að "félaginu hafi tekist að reka álver sitt á Grundartanga á sléttu þegar álverðið fór niður í 1.275 dollara á tonnið í mars 2009. Þetta hafi verið hægt vegna þess hve raforkuverðið á Íslandi er hagstætt félaginu."

Því spyr formaður sig, hvernig stendur á því að ef tekist hafi að reka álverið á sléttu í mars 2009 á 1.275 dollurum tonnið, að það dugi þá ekki 1.700 dollara meðalverð eins og raunin varð yfir allt árið. Einnig hefur gengið verið fyrirtækinu í hag, þeir selja álið í dollurum og borga laun í íslenskum krónum, en dollarinn hækkaði um 40% á milli áranna 2008 og 2009.

Það er skýlaus krafa okkar Íslendinga að reyna að ná sem mest út úr þeim erlendu stóriðjufyrirtækjum sem eru með starfsemi hér á landi, njóta hagstæðs raforkuverðs og fá afnot af landinu okkar og þeim mikla mannauði sem hér býr. En grundvallaratriðið er hins vegar það að áliðnaðurinn er að gera mjög góða hluti, álverðið í dag er yfir 2.200 dollarar og á þeirri forsendu er engin ástæða til að reka láglaunastefnu í stóriðjunni á Grundartanga.

Ríkissáttasemjari hefur boðað til næsta samningafundar á föstudaginn nk.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image