• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
17
Mar

Góð afkoma HB Granda

Verkalýðsfélag Akraness fagnar því innilega að rekstur HB Granda á síðasta ári virðist hafa verið mjög góður. En hagnaður HB Granda á síðasta ári nam 13 milljónum evra, eða um 2,2 milljörðum króna.

Það hefur verið töluverð vinnsla í frystihúsi fyrirtækisins á liðnu ári og fjölgaði starfsmönnum lítillega. Einnig fór fram umtalsverð vinna við hrognatöku hér á Akranesi og var til dæmis unnið á sólarhringsvöktum á meðan á vertíðinni stóð. Og núna á síldarbræðslan von á tveimur skipum með kolmunnaafla til bræðslu hér á Akranesi. Á þessu sést að vinnsla hér á Akranesi hefur bara verið með miklum ágætum á liðnu ári, starfsmönnum til heilla.

Rétt er að það komi skýrt fram að stjórn HB Granda á heiður skilinn fyrir að vera eitt af fáum fyrirtækjum hér á landi sem hefur staðið að fullu við allar þær launahækkanir sem um var samið 17. febrúar 2008 og hefur gert það að verkum að verkafólk og aðrir starfsmenn fyrirtækisins hafa ekki orðið af vel á annað hundrað þúsund krónum vegna þeirrar frestunar sem samkomulag ASÍ og Samtaka atvinnulífsins kvað á um. Sem dæmi þá fengu allir starfsmenn 2,5% launahækkun um síðustu áramót en í áðurnefndu samkomulagi eiga þessar hækkanir ekki að taka gildi fyrr en 1. júlí næstkomandi. Það væri óskandi að það væru fleiri fyrirtæki hér á landi sem hefðu fjárhagslega burði til að standa við þær launahækkanir sem áttu að taka gildi 1. janúar síðastliðinn eins og HB Grandi gerði.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image