• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
09
Feb

Margar hraðahindranir framundan

Í gær var haldinn níundi samningafundur vegna kjarasamnings Norðuráls í húsakynnum ríkissáttasemjara. Meginefni fundarins í gær var að fara yfir þau ágreiningsefni er lúta að texta í nýjum kjarasamningi og er sú vinna langt komin þó vissulega séu nokkur atriði sem verulegur ágreiningur er um.

Formaður Verklýðsfélags Akraness kynnti á þarsíðasta fundi fyrir samninganefnd stéttafélaganna launasamanburð sem hann hafði gert á eftirtöldum verksmiðjum: Norðuráli, Elkem Ísland og Alcan í Straumsvík. Nú hefur hagfræðingur ASÍ einnig gert sambærilegan launasamanburð og er skemmst frá því að segja að samanburðinum ber algjörlega saman. Það er ljóst að það er mikil vinna framundan við að jafna launakjör þessara verksmiðja en eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni mun Verkalýðsfélag Akraness ekki kvika frá þeirri kröfu að þessum launamuni verði endanlega eytt.

Það hefur einnig komið fram hér á heimasíðunni að rekstur stóriðjanna almennt hefur verið mjög góður á undanförnum árum og ef skoðaðar eru hagnaðartölur áðurnefndra fyrirtækja 12 ár aftur í tímann þá kemur í ljós að Alcan hefur skilað 41 milljarði í hagnað, Norðurál rúmum 36 milljörðum og Elkem Ísland 2,6 milljörðum. Sem dæmi til viðbótar þá skilaði Norðurál 16 milljörðum í hagnað árið 2008. Á þessu sést að þessi útflutningsfyrirtæki hafa fulla burði til að koma vel til móts við það góða starfsfólk sem hjá stóiðjunni starfar og greiða góð laun.

Næsti fundur verður á föstudaginn kemur og eins og áður hefur komið fram þá eru margar hraðahindranir sem samninganefnd stéttafélaganna þarf að fara yfir áður en gengið verður frá nýjum samningi. En til að ítreka það enn og aftur þá eru engar forsendur fyrir því að gefinn verði afsláttur á launakjörum starfsmanna Norðuráls sökum þess góða reksturs sem fyrirtækið hefur skilað á liðnum árum. Og þessu til viðbótar er rétt að minna á að fyrirtækið selur sínar afurðir í dollurum og hefur dollarinn frá árinu 2008 hækkað um 108%. Á sama tíma eru laun greidd í íslenskum krónum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image