• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
15
Dec

Munu fyrirtæki standa við 2,5% hækkun um áramótin?

Eins og flestir muna var gengið frá kjarasamningi á hinum almenna vinnumarkaði 17. febrúar 2008. Í þeim samningi var kveðið á um að launahækkanir skyldu verða með eftirfarandi hætti: 1. mars 2009 áttu þeir sem voru að vinna eftir töxtum að hækka um 13.500 kr. og þeir sem voru ekki að vinna eftir taxtakerfi áttu að fá 3,5% launahækkun. 1. janúar 2010 áttu laun síðan að hækka um 2,5%.

Eins og flesta rekur minni til þá gengu samninganefnd ASÍ og Samtök atvinnulífsins frá samkomulagi í tvígang, fyrst 25. febrúar og síðar 25. júní um frestun á þeim launahækkunum sem áttu að taka gildi samkvæmt samningnum 17. febrúar 2008. Fyrst var taxtahækkunum upp á 13.500 kr. frestað til 1. júlí og einnig 3,5% hækkun þeirra sem ekki voru að vinna á launatöxtum. 25. júní var gengið frá öðru samkomulagi og þá var ákveðið að þeir sem væru að vinna eftir töxtum fengju einungis 6.750 kr. launahækkun og aftur 6.750 kr. 1. nóvember síðastliðinn og þeir sem ekki væru að vinna eftir launatöxtum fengju 3,5% 1. nóvember. Hækkunin upp á 2,5% sem ætti að taka gildi núna 1. janúar næstkomandi var frestað til 1. júní 2010.

Þessu mótmælti Verkalýðsfélag Akraness harðlega á sínum tíma, fyrst á formannafundi ASÍ sem haldinn var 16. febrúar og rök Verkalýðsfélags Akraness voru einfaldlega þau að klárlega væru til fyrirtæki sem gætu staðið við þann hófstillta samning sem gerður var 17. febrúar 2008. Nefndi formaður í því samhengi sérstaklega öll fyrirtæki sem að starfa í útflutningi, þar á meðal fiskvinnslufyrirtækin. Einnig nefndi formaður olíufyrirtækin sem hafa viðstöðulaust varpað sínum vanda út í verðlagið. 

Verkalýðsfélag Akraness lá undir hörðum ámælum fyrir að mótmæla því að fresta áður umsömdum launahækkunum. Sú gagnrýni kom bæði frá forystu ASÍ og einnig frá Samtökum Atvinnulífsins og nægir að nefna í því samhengi viðtal við Vilhjálm Egilsson, framkvæmdastjóra SA, sjá hér.

Allir muna eftir arðgreiðslum HB Granda en fyrirtækið skilaði góðri afkomu á árinu 2008 og tilkynnti í framhaldinu að það hyggðist greiða arðgreiðslur til hluthafa. Þessu fagnaði Verkalýðsfélag Akraness á sínum tíma en gerði skýlausa kröfu á hendur fyrirtækinu að það myndi greiða starfsmönnum sínum þær hækkanir sem áttu að taka gildi 1. mars á þeim forsendum að fyrirtækið var að skila góðri afkomu. Við þessari beiðni varð fyrirtækið og allir starfsmenn HB Granda fengu þær hækkanir sem áttu að taka gildi 1. mars 2009 og í kjölfarið fylgdi fjöldi annarra fiskvinnslufyrirtækja á eftir þrátt fyrir að samninganefnd ASÍ hafi verið búin að semja þessar launahækkanir frá sér.

Verkalýðsfélag Akraness skoraði einnig í dagblöðum á öll vel stæð fyrirtæki að standa við gerða samninga á sínum tíma. Sjá hér.  

Núna eru fiskvinnslufyrirtækin vítt og breitt um landið að greiða starfsmönnum bónusa vegna góðrar afkomu og á þeirri forsendu verður afar fróðlegt að fylgjast með því hvort fiskvinnslufyrirtæki sem og önnur vel stæð fyrirtæki komi ekki örugglega með þá hækkun sem á að taka gildi 1. janúar 2010 ef farið væri eftir þeim kjarasamningi sem gerður var 17. febrúar 2008. Verkalýðsfélag Akraness ber þá von í brjósti sér að fyrirtæki skýli sér ekki á bak við það ömurlega samkomulag sem samninganefnd ASÍ og SA gengu frá 25. júní síðastliðinn og bíði ekki með hækkanirnar til 1. júní 2010 eins og samkomulagið kveður á um. Formaður spyr sig hví í ósköpunum eigi að gefa vel stæðum fyrirtækjum afslátt á þeim samningi sem gerður var 17. febrúar 2008 enda eru engar forsendur fyrir slíku.

Verkalýðsfélag Akraness hefur ætíð sagt að það er samninganefnd Alþýðusambands Íslands og verkalýðshreyfingunni í heild sinni til skammar að hafa gefið vel stæðum fyrirtækjum afslátt á þeim kjarasamningi sem gerður var á árinu 2008 en með þeim afslætti hefur verið haft af verkafólki vel á annað hundrað þúsund krónur á umræddu tímabili.

Verkalýðsfélag Akraness skorar á öll fyrirtæki sem eru starfandi í útflutningi og einnig þau fyrirtæki sem hafa fjárhagslega burði til að koma með þær hækkanir sem eiga að taka gildi 1. janúar 2010 eða sem nemur 2,5% launahækkun. Formaður Verkalýðsfélags Akraness gagnrýndi frestun kjarasamninga harðlega í ræðu sinni á ársfundi Alþýðusambands Íslands og skorar hann á fólk að hlusta á þá ræðu og þau rök sem Verkalýðsfélag Akraness hafði í þessu máli. Ræðurnar þar sem fjallað er um frestun á kjarasamningum eru í fyrsta, öðrum og sjötta hluta.

Hægt er að hlusta á ræðurnar hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image