• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
17
Dec

Lágmarkslaun til skammar fyrir íslenskt samfélag og verkalýðshreyfinguna

Það var afar athyglisverð frétt á Stöð 2 í gær þar sem sagt var frá því að Útlendingastofnun hefði synjað tælenskri konu um búsetuleyfi á þeirri forsendu að 175 þúsund króna laun dygðu ekki til framfærslu. Umrædd kona starfar í einu af þvottahúsum ríkisspítalanna og er afar fróðlegt að sjá að Útlendingastofnun skuli vera búin að kveða upp úrskurð um að laun upp á 175 þúsund krónur dugi ekki fyrir framfærslu. Formaður Verkalýðsfélags Akraness er í raun og veru algjörlega sammála því að lágmarkslaun á hinum almenna vinnumarkaði dugi engan veginn fyrir lágmarksframfærslu.

Það er ágætt að vera búin að fá þessa staðfestingu frá Útlendingastofnun um að lágmarkslaun á Íslandi í dag dugi ekki til að fólk geti framfleytt sér. Þetta mun klárlega verða notað í komandi kjaraviðræðum, bæði við ríki, sveitarfélög og á hinum almenna vinnumarkaði sem rök fyrir því að hækka beri lágmarkslaun umtalsvert þegar kjarasamningar verða lausir á næsta ári.

Formaður félagsins hefur margoft fjallað um þessi skammarlega lágu lágmarkslaun og gerði það meðal annars á ársfundi Alþýðusambands Íslands sem haldinn var dagana 22.-23. október síðastliðinn en í ræðu sem hann hélt sagði hann að það væri íslensku samfélagi og einnig verkalýðshreyfingunni til skammar að vera með lágmarkstaxta sem dygðu ekki fyrir framfærslu fólks. Skorar formaður á fólk að hlusta á umrædda ræðu en hlutinn sem snýr að lágmarkslaununum er í öðrum hluta þegar 8 mínútur eru búnar af ræðunni.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image