• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Verkalýðsfélag Akraness fagnar fjölgun starfa hjá HB Granda Störfum fjölgar hjá HB Granda
29
Dec

Verkalýðsfélag Akraness fagnar fjölgun starfa hjá HB Granda

Um 3.800 tonn af bolfiski fóru til vinnslu hjá fiskiðjuveri HB Granda á Akranesi á árinu sem er að líða. Þetta er mun meira en áætlanir gerðu ráð fyrir og var starfsmönnum fjölgað í samræmi við aukin umsvif. Í byrjun árs voru 25 starfsmenn í vinnu hjá HB Granda á Akranesi en þeir eru nú um 40 talsins.

Torfi Þ. Þorsteinsson, framleiðslustjóri HB Granda, segir í samtali við vef fyrirtækisins að vinnsla á þorski hafi verið aukin að nýju í fiskiðjuverinu á Akranesi á árinu og alls hafi um 3.200 tonn af þorski verið unnin þar. Vinnsla á ufsa nemi um 600 tonnum.

"Það var aukið við þorskkvótann í janúar sl. og það skilaði sér strax í auknum umsvifum í landvinnslunni á Akranesi. Ekkert hlé varð á vinnslunni í sumar. Við réðum 15 námsmenn til starfa yfir hásumarið og allt voru þetta ákaflega dugleg ungmenni sem við vonumst til að fá aftur til vinnu á næsta ári,“ segir Torfi. Ekki hefur fallið niður vinna í einn einasta dag á þessu ári vegna hráefnisskorts hjá HB Granda á Akranesi.

,,Það var mjög mikið að gera í sumar sem leið og í júlímánuði var t.d. unnið frá klukkan 6 á morgnana og fram til kl. 18 alla virka daga og sömuleiðis var unnið á laugardögum. Starfsmenn hafa sýnt mikinn dugnað og sveigjanleika og alltaf verið tilbúnir að bæta við sig vinnu þegar á þarf að halda. Sala og vinnsla hefur sömuleiðis gengið mjög vel.  Allir þorskhnakkar eru seldir ferskir og fara með flugi á markaði á meginlandi Evrópu. Afurðirnar eru seldar á hæsta verði og viðskiptamenn okkar sætta sig ekki við annað en fyrsta flokks vöru. Ufsavinnslan er einnig stór þáttur í starfseminni á Akranesi. Ufsinn er léttsaltaður og lausfrystur og fer á markað í Brasilíu og Suður-Evrópu,“ segir Torfi.

Í jólafríi var ráðist í töluverðar lagfæringar á vinnslulínum hjá HB Granda á Akranesi. Bætt var við niðurskurðarvél og flokkara og pökkunaraðstaða var endurbætt.  Einnig voru gólf lagfærð og tækifærið notað til að sinna annarri viðhaldsvinnu.

Verkalýðsfélag Akraness fagnar þessari auknu starfsemi hjá HB Granda hér á Akranesi.  Sérstaklega í ljósi þess að gríðarleg fækkun starfa hefur verið í landvinnslu HB Granda á undanförnum árum og sé dæmi þá voru um 120 manns sem störfuðu í landvinnslunni hér á Akranesi á árinu 2003.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image