• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
02
Oct

Ríkisstjórnin ógnar framtíð starfa í stjóriðju

Í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram í gær er gert ráð fyrir að skattar sem lagðir verða á einstaklinga á næsta ári hækki um 36,8 milljarða kr. Skattar á vörur og þjónustu eiga að hækka um tæplega 31 milljarð kr. Þar af hækkar virðisaukaskattur um tæpa 10 milljarða kr. Það er alveg ljóst að heimili þessa lands munu á engan hátt þola þá auknu skattbyrði sem fyrirhuguð er á næsta ári og ljóst að ef ekki verður breyting á mun heimilum þessa lands blæða endanlega út.

Það er með ólíkindum að ekki skuli skoðuð gaumgæfilega sú hugmynd að skattleggja lífeyrissjóðsiðgjöld jafnóðum og þau eru greidd inn í sjóðina, og hætta þar af leiðandi núverandi kerfi sem byggist á því að sjóðsfélagar greiða skatt þegar kemur að lífeyristöku. Ef slíkt yrði gert yrði klárlega hægt að komast hjá þeim miklu skattahækkunum sem þegar hafa verið boðaðar.

Í gær birtist afar athyglisverð grein í Morgunblaðinu eftir tryggingastærðfræðingana Benedikt Jóhannesson og Bjarna Guðmundsson þar sem þeir segja að með því að skattleggja lífeyrisgreiðslur strax geti ríkið náð allt að 30-35 milljörðum króna í ríkissjóð á ári. Þeir tala einnig um að hugsanlega sé þetta ein besta leiðin til að leysa hina brýnu þörf á skatttekjum án þess að valda heimilum búsefjum með hækkunum á álögum.

Nýr liður í skattahlið fjárlaga hefur verið kynntur og ber beitið Orku-, umhverfis- og auðlindagjöld en þeim er ætlað að skila inn 16 milljörðum kr. á næsta ári. Ef þessi skattur verður að veruleika er ljóst að starfsöryggi starfsmanna stóriðjufyrirtækjanna Norðurál, Elkem Ísland og Sementsverksmiðjunnar verður stefnt í stórhættu.

Viðtal var við formann félagsins á vef Skessuhorns í dag og birtist það í heild sinni hér að neðan:

 

“Þær tillögur sem nú liggja fyrir varðandi orku- og kolefnisskatta á stóriðjufyrirtæki gerir það að verkum að það er verið að leggja störf þeirra sem starfa við stóriðju hér á landi í stórhættu,” segir Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness í samtali við Skessuhorn. Eins og kunnugt er kynnti fjármálaráðherra í gær fjárlagafrumvarp næsta árs og er þar gert ráð fyrir verulegum skattaálögum á stóriðjuna sem ekki hefur verið til staðar hingað til. “Á okkar starfssvæði er þetta einkum Grundartangasvæðið þar sem þúsund störf eru nú sett í fullkomna hættu. Stóriðjan þar beinlínis heldur lífinu í samfélaginu á Akranesi og nágrannabyggðum. Ef þessar hugmyndir ná fram að ganga gæti þessi skattur á Norðurál á Grundartanga numið á sjötta milljarði króna, hjá Elkem Ísland vel á annan milljarð og á Sementsverksmiðjuna einhver hundruð milljóna. Það er morgunljóst að Sementsverksmiðjan og Elkem Ísland hafa enga burði til að taka slíka skattlagningu á sig og því er eins og ég sagði verið að ógna framtíð þessara fyrirtækja og störfum fólksins.”

Vilhjálmur segir að þessu til viðbótar séu kjarasamningur starfsmanna Norðuráls lausir um næstu áramót. “Ef þessi áform ríkisstjórnarinnar lenda á fyrirtækinu er verið að setja kjarasamningsgerðina í algjört uppnám.  Okkar tillaga er sú að það eigi að ná inn sköttum úr stóriðju í gegnum tekjuskatta starfsmanna. Þar fá ríkið og sveitarfélög 37% af laununum og ætti að sjá hag sinn í að svo verði áfram í stað þess að ógna tilveru fyrirtækjanna. Það er með ólíkindum að horfa upp á vinnubrögð þessarar ríkisstjórnar þar sem er verið að ógna starfsöryggi allra sem starfa í stóriðju. Ég vil því skora á ríkisvaldið að endurskoða þessar tillögur strax.”

Vilhjálmur vill benda ríkisstjórn á skoða gaumgæfilega að skattleggja lífeyrisgreiðslur jafnóðum. “Það gæti skilað ríkissjóði 30-40 milljörðum á ári. Þetta myndu heimili landsins ekki finna fyrir á einn eða neinn hátt nú. Á þeirri forsendu á að skipa hóp sérfræðinga til að skoða það að skattleggja lífeyrisgreiðslurnar strax og hætta þessari endemis vitleysu. Stjórnvöld verða að átta sig á því að ofan á minni veltu og verkefni í þjóðfélaginu eru stjórnvöld að hækka skattaálögur svo mikið bæði á einstaklinga og fyrirtæki að fólki er einfaldlega að blæða út,” sagði Vilhjálmur að lokum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image