• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
05
Oct

Þingmenn og ráðherra boðaðir til fundar á Akranesi

Á að leggja styrkustu stoðir atvinnulífs Akurnesinga í rúst?Á að leggja styrkustu stoðir atvinnulífs Akurnesinga í rúst?Eins og fjallað hefur verið um hér á síðunni þá gert ráð fyrir nýjum skattalið í fjárlagafrumvarpinu sem ber beitið Orku-, umhverfis- og auðlindagjöld en áætlað er að þau komi til með að skila inn 16 milljörðum kr. á næsta ári.

Ef þessar hugmyndir ná fram að ganga þá myndi það þýða að Norðurál yrði gert að greiða um 6 milljarða króna í þennan nýja skatt, Elkem Ísland um 2 milljarða og Sementsverksmiðjan rúmar 203 milljónir.

Það er algjörlega ljóst að ef þessi nýi skattur verður að veruleika þá mun það stefna störfum í þessum fyrirtækjum í stórhættu. Sem dæmi þá hefur t.a.m. Elkem Ísland aldrei nokkurn tímann skilað 2 millljörðum í hagnað. Einnig má nefna að Sementsverksmiðjan berst fyrir lífi sínu þessi misserin. Á þessu sést hvers lags firring það er að ætla sér að fara að skattleggja þessi fyrirtæki sem í raun og veru eru að halda uppi atvinnustarfseminni á Akranesi og í nærsveitum.

Verkalýðsfélag Akraness og bæjaryfirvöld hafa boðað til fundar á föstudaginn kemur í bæjarþingsalnum þar sem Ragnar Guðmundsson forstjóri Norðuráls, Einar Þorsteinsson forstjóri Elkem Ísland og Gunnar Sigurðsson forstjóri Sementsverksmiðjunnar munu mæta. Einnig verður öllum þingmönnum Norðvesturlandskjördæmis boðið ásamt iðnaðarráðherra.

Hér er um grafalvarlegt mál að ræða þar sem atvinnuöryggi um 1.000 starfsmanna er í húfi, á þeirri forsendu er gríðarlega mikilvægt að gera þingmönnum og ráðherra grein fyrir þeirri alvarlegu stöðu sem upp getur komið ef þessar hugmyndir verða að veruleika.

Það er mat Verkalýðsfélags Akraness að hægt sé að fá auknar skatttekjur með því að hækka laun starfsmanna, en við hækkun launa starfsmanna þá fá ríki og sveitarfélög samtals rúm 37% til sín. Það má ekki gleyma því að stóriðjufyrirtækin eru með samninga við ríkið um kaup á raforku mörg ár fram í tímann og það gengur ekki upp að ætla sér að koma með auknar skattgreiðslur á þessi fyrirtæki þegar gengið hefur verið frá samningum fram í tímann. Slíkt gerir ekki annað en að fæla alla erlenda fjárfesta frá landinu.

Það eru lausir samningar hjá starfsmönnum Norðuráls nú um áramótin og með þessum tillögum er verið að setja þá kjarasamningsgerð í fullkomna upplausn.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image