• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
07
Oct

Stór fundur um nýja skatta á stóriðjufyrirtækin á föstudaginn

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðu félagsins þá verður fundur um nýjan skatt sem til stendur að leggja á stóriðjufyrirtækin hér á landi sem heitir Orku- umhverfis- og auðlindaskattur. Þessi skattur á að skila ríkissjóði samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi um 16 milljarða króna. Það hefur einnig komið fram hér á síðunni að slík skattlagning myndi þýða 6 milljarðar fyrir Norðurál, 2 milljarðar fyrir Elkem Ísland og yfir 200 milljónir fyrir Sementsverksmiðjuna.

Með þessum skatti væri verið að leggja rekstrargrundvöll þessara fyrirtækja í umtalsverða hættu, en ekki síður er verið að stefna atvinnuöryggi þúsunda starfsmanna í stóriðjum á okkar svæði í stórhættu ef þessi skattur verður að veruleika. Á þeirri forsendu hefur Verkalýðsfélag Akraness í samráði við bæjaryfirvöld á Akranesi ákveðið að boða alla þingmenn Norðvestur-kjördæmisins ásamt iðnaðarráðherra og forstjórum áðurnefndra stóriðjufyrirtækja á fund sem haldinn verður í Tónbergi, föstudaginn 9. október kl. 16:00.

Hér er einfaldlega um grafalvarlegt mál að ræða, því það er alveg ljóst að sú farsæla uppbygging sem orðið hefur á Grundartanga á undanförnum árum og áratugum hefði ekki orðið ef skattheimta sem nú er fyrirhuguð hefði orðið að veruleika hér á árum áður.

Elkem Ísland hefur t.a.m. aldrei nokkurn tímann skilað 2 milljörðum í hagnað frá því þeir hófu starfsemi, en þetta frumvarp gerir hins vegar ráð fyrir því að þeir greiði 2 milljarða í aukaskatt á næsta ári. Hins vegar hefur fyrirtækið ráðist í framkvæmdir fyrir 8 milljarða á síðustu misserum, en fyrirtækið hefur nýverið hafið framleiðslu á nýrri afurð sem nefnist FSM og þessa dagana er verið að ráðast í gríðarlegar endurbætur á ofni 3 sem kostar fyrirtækið um 800 milljónir.

Það er ljóst að ef þessi fyrirhugaði skattur hefði legið fyrir þegar Elkem lokaði verksmiðju sinni í Noregi og færði starfsemina hingað til lands, þá hefði uppbygging og stækkun Elkem á Grundartanga aldrei orðið að veruleika.

Er þetta sú atvinnumálastefna sem núverandi ríkisstjórn ætlar að standa fyrir? Að drepa niður traustustu fyrirtæki okkar svæðis með stóraukinni skattheimtu sem ekkert fyrirtæki getur staðið undir.

Krafan er skýr, burtu með þennan skatt. Það er hægt að ná auknum tekjum til ríkisins með því að hækka laun starfsmanna og það mun verða hlutverk Verkalýðsfélags Akraness. Hærri laun skila ríki og sveitarfélögum yfir 37% í formi skattgreiðslna starfsmanna.

Rætt var við formann félagsins í Ísland í bítið í gærmorgun, meðal annars um þetta mál. Hægt er að hlusta á viðtalið hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image