• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
01
Sep

Áskorun til N1 lögð fyrir stjórn VLFA í kvöld

Í kvöld mun stjórn Verkalýðsfélags Akraness koma saman til fundar og eitt af málefnum fundarins er sú staðreynd að N1 var að skila 500 milljónum í hagnað á fyrstu 6 mánuðum ársins. Fyrir fundinn verður lögð áskorun til stjórnar N1 þar sem þess verður farið á leit við fyrirtækið að það greiði sínum starfsmönnum þær launahækkanir sem um var samið 17. febrúar 2008.

Eins og fram hefur komið á heimasíðunni þá var verkafólk þvingað til að afsala sér áður umsömdum launahækkunum. Nemur tap almenns verkamanns sem starfar eftir lágmarkstaxta upp undir 100.000 kr. vegna þess samkomulags sem ASÍ og SA gerðu á sínum tíma.

Verkalýðsfélag Akraness hefur ætíð verið á móti áður nefndu samkomulagi með þeim rökum að til væru fyrirtæki sem klárlega hefðu fjárhagslega burði til að standa við þann hófstillta kjarasamning sem gerður var þann 17. febrúar 2008. Nægir að nefna fyrirtæki sem starfa í útflutningi og fyrirtæki sem hafa möguleika á að varpa sínum vanda beint út í verðlagið.

Ef stjórn félagsins samþykkir þá áskorun sem fyrir hana verður lögð á fundinum í kvöld þá verður áskorunin send til stjórnar N1 á morgun.

Félagið hefur áður sent út áskorun til fyrirtækja þar sem þau fyrirtæki sem hafa fjárhagslega burði til eru hvött til að standa við gerða samninga.

Í gær var rætt var við formann félagsins í Reykjavík síðdegis. Hægt er að hlusta hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image