• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
21
Sep

Lán til eignarhaldsfélaga jafn há og eign lífeyrissjóðanna

Það var afar athyglisverð frétt sem birtist á Stöð 2 og Vísi.is nú um helgina og varðaði lán bankanna til eignarhaldsfélaga. Hægt er að lesa fréttina hér.. Í fréttinni kom fram að bankarnir hafa lánað eignarhaldsfélögum 1.703 milljarða króna og þar kom einnig fram að allt sé á huldu hvað varðar veð og tryggingar á þessum lánum.

Til að almenningur átti sig á því um hverslags gríðarlegar upphæðir eru hér að ræða þá er hrein eign lífeyrissjóðanna í dag í kringum 1.762 milljarðar. Það lýsir því hvers lags firring hefur átt sér stað í útlánastarfsemi bankanna til eignarhaldsfélaganna þegar lánveitingar séu orðnar jafnháar og eignir lífeyrissjóðanna, en eignir lífeyrissjóðanna hafa verið byggðar upp af öllu launafólki á síðustu 40 árum.

Hvernig má slík skuldsetning hafa átt sér stað? Hvaða útlánareglum fóru bankanir eiginlega eftir?

Það kom einnig fram í fréttinni að búið er að afskrifa um 85 milljarða og eru eftirtaldir aðilar nefndir í því samhengi:

  • Eignarhaldsfélagið Milestone 
  • Eignarhaldsfélag í eigu Bjarna Ármannssonar
  • Eignarhaldsfélagið Langflug sem Finnur Ingólfsson fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins átti meirihluta í
  • Eignarhaldsfélagið Fons

Þessir 85 milljarðar sem þegar hafa verið afskrifaðir myndu duga til að greiða atvinnuleysisbætur í þrjú ár en áætlað er að greiddar verði út atvinnuleysisbætur fyrir 29 milljarða á næsta ári.

Það ætlar allt um koll að keyra hjá hinum ýmsu aðilum í þjóðfélaginu þegar hugmyndir um almennar leiðréttingar á skuldum heimilanna eru ræddar.  Nei, almennar leiðréttingar á skuldum heimilanna eru alls ekki framkvæmanlegar að mati ráðamanna þjóðarinnar og fleiri áhrifamanna í íslensku þjóðfélagi.

Öðru máli virðist gegna um afskriftir hjá eignarhaldsfélögum til að mynda félögum tengdum Bjarna Ármannssyni upp á 800 milljónir og skuldir hjá eignarhaldsfélaginu Langflugi sem Finnur Ingólfsson fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins átti meirihluta í upp á 14 milljarða.  Ætlar einhver að halda því fram að Bjarni Ármannssson hafi ekki fjárhagslega burði til að standa skil á þessari skuld.  Nei, hann ætlar ásamt fleirum sér líkum að skýla sér á bakvið eignarhaldsfélögin sín og segir að það væri óábyrg meðferð fjármuna að greiða skuldina.  Ef hins vegar almennt launafólk stendur ekki við sínar skuldbindingar þá er það hundelt og getur sér hvergi um frjálst höfuð strokið í áraraðir.

Hvernig má það eiga sér stað að bankarnir hafi lánað 1.703 milljarða til eignarhaldsfélaga? Hvaða lánareglur giltu hjá bönkunum? Hvar voru eftirlitsaðilar, t.a.m. fjármálaeftirlitið? Getur verið að farið hafi verið eftir öllum lánareglum sem í gildi voru hjá bönkunum?

Það er eins og áður hefur komið fram með hreinustu ólíkindum að lánveiting til eignarhaldsfélaga hafi verið orðin jafnmikil og hrein eign lífeyrissjóðanna. Það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að þetta mál verði að rannsaka og fá botn í.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image