• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
24
Sep

Hvaða veð og tryggingar liggja að baki 1.703 milljörðum til eignarhaldsfélaga

Rætt var við formann félagsins í fréttum Stöðvar 2 í gær vegna þeirrar firringar sem hefur átt sér stað í útlánum bankanna til eignarhaldsfélaga, en bankarnir hafa lánað eignarhaldsfélögum 1.703 milljarða, sem er litlu minna en hrein eign lífeyrissjóðanna í landinu, sem er 1.762 milljarðar.

Verkalýðsfélag Akraness krefst þess að fá upplýsingar um hvaða veð og tryggingar liggi að baki þessum útlánum, einfaldlega á þeirri forsendu að töluverðar líkur eru á því að þetta muni allt lenda á almenningi. Það liggur fyrir að þegar almennt launafólk getur ekki staðið við sínar skuldbindingar, þá er húsnæði þeirra gert upptækt og það er hundelt í áraraðir ef ekki áratugi. En snillingarnir sem standa á bak við eignarhaldsfélögin þeir virðast geta gengið hnarreistir frá sínum skuldum.

Í fréttum DV.is í dag kemur fram að fjármálaeftirlitið hefur nú til rannsóknar mál þar sem talið er að kerfisbundið hafi verið reynt að halda verði hlutabréfa uppi fyrir bankahrunið með því að senda röng og misvísandi skilaboð til markaðarins. Í fréttinni segir m.a.:

"Dæmi er um lánveitingar hjá Kaupþingi til eignarhaldsfélaga þar sem lánið var nýtt til að kaupa hlutabréf í Kaupþingi og einu veðin voru bréfin sjálf. Dæmi um það eru kaup Holt Investments Ltd. eignarhaldsfélags Skúla Þorvaldssonar þar sem eini tilgangurinn hafi verið hlutabréfakaup í Kaupþingi. DV.is greindi frá því þann fyrsta ágúst síðastliðinn að Skúli hafi verið stærsti lántakandi Kaupþings í Lúxemborg en samkvæmt gögnum sem lekið var á vefsíðuna Wikileaks í sumar námu heildarlán til félaga hans um 750 milljónum evra, eða rúmlega 220 milljörðum króna."

Það er mjög mikilvægt að það verði upplýst hversu góð og haldbær veð og tryggingar liggi að baki þessum 1.703 milljörðum, sérstaklega þegar liggur fyrir að dæmi séu um að eignarhaldsfélögum hafi verið lánaðir tugir ef ekki hundraðir milljarðar til hlutabréfakaupa, með einungis veði í bréfunum sjálfum.

Það er sorglegt fyrir almennt launafólk að hlusta nú á ráðamenn þjóðarinnar halda því fram að ekki sé svigrúm til almennra leiðréttinga á skuldum heimilanna, í ljósi þess gríðarlega forsendubrests sem orðið hefur. Það virðist ætíð vera þannig að grálúsugur almúginn þarf að standa skil á sínu, en hvítflibbarnir virðast geta gengið frá sínum skuldum og skýlt sér á bak við handónýt lög um eignarhaldsfélög. Það er algerlega ljóst að þessu þarf að breyta og það tafarlaust.

Hægt er að lesa fréttina á DV.is í heild sinni hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image