• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Skiptir þjóðarbúið miklu máli Frá opnum fundi um hvalveiðar í febrúar 2009 sem Verkalýðsfélag Akraness stóð fyrir
25
Sep

Skiptir þjóðarbúið miklu máli

Hvalveiðbátarnir tveir sem veitt hafa langreyðar frá því í júní komu í gær með síðustu dýrin að landi í hvalstöðinni í Hvalfirði. Alls veiddust 125 langreyðar af 150 dýra kvóta sem Hvalur hf. fékk úthlutað í ár. Færast því 25 dýr yfir á næsta veiðisumar en heimilt er að færa allt að 20% á milli ára líkt og í kvótasettum fiski. Kristján Loftsson forstjóri Hvals segir í samtali við Skessuhorn að veiðarnar og vinnslan hafi gengið vel í sumar. “Við fórum aðeins seinna í gang en við ætluðum í vor en ljúkum þessu núna þar sem miðað við veðurspá megi búast við brælu. Það verður að hafa sæmilegt veður við þessar veiðar og gott skyggni. Reyndar er þetta mjög svipaður tími sem við hættum og var hér áður fyrr áður en hvalveiðistoppið tók gildi,” segir Kristján.

Kristján segir að nú taki við þrif og frágangur í hvalstöðinni. Þá verði vinnuflokkur ásamt iðnaðarmönnum að störfum fram undir áramót við að lagfæra og endurnýja það sem þarf í stöðinni. Aðspurður segir hann að um 160 hafi unnið við veiðarnar og vinnsluna í sumar. Þar af voru um 30 á bátunum tveimur, upp undir hundrað í hvalstöðinni, um 30 í vinnslunni á Akranesi og um tugur í Hafnarfirði. Þannig má segja að mikið hafi munað um að hafa hvalvinnsluna í sumar þegar atvinnuleysi var meira en um áraraðir.

150 milljón munnar

Aðspurður um horfur á sölu kjötsins segir Kristján þær vera góðar. “Við erum að fara yfir sölumálin, skoða efnagreiningar á kjötinu og erum að skoða með frystiskip til að flytja það til Japan. Megnið af þessu kjöti fer í útflutning en hluti þess er seldur hér heima. Japanir hafa sýnt þessu kjöti mikinn áhuga og hafa vinnslu- og söluaðilar þaðan komið í sumar til að kynna sér aðstæður.” Kristján segir að í Japan sé kjötið ýmist sneitt niður til sölu í verslunum eða selt í áframvinnslu, svo sem niðursuðu. “Við höfum engar áhyggjur af að kjötið seljist ekki. Þarna eru 150 milljónir munnar að metta. Japönum líkar vel við hvalkjötið og líta á það sem úrvalsvöru enda um hreint og ómengað sjávarfang að ræða, án lyfja eða hormóna,” sagði Kristján Loftsson.

Það er alveg ljóst að þessar hvalveiðar hafa haft gríðarlega jákvæð áhrif á atvinnulífið hér á Akranesi, enda liggur fyrir að útsvarstekjur Akraneskaupstaðar verða umtalsverðar vegna þessara veiða.  Stjórn Verkalýðsfélags Akraness fagnar því innilega að veiðar á hval hafi verið heimilaðar að nýju, enda er það skýlaus réttur okkar að nýta þær auðlindir sem við búum yfir bæði til sjávar og sveita.  Það er einnig ljóst að þessar veiðar skipta þjóðarbúið miklu máli í ljósi þess að veiðarnar skapa þjóðinni töluverðar gjaldeyristekjur og veitir ekki af um þessar mundir.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image