• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
30
Sep

Skipa þarf hóp sérfræðinga til að kanna kosti og galla á skattlagningu lífeyrissjóðsgjalda

Samkvæmt fréttum ekki alls fyrir löngu vinnur ríkisstjórnin nú að útfærslu fjárlagafrumvarpsins, en reiknað er með að niðurskurður í ríkisútgjöldum muni nema um 179 milljörðum til ársins 2013. Fram kemur í fréttinni að draga þurfi saman í ríkisútgjöldum um 63 milljarða á næsta ári.

Það er alveg ljóst að koma mun til töluverðra skattahækkana til að mæta þessum niðurskurði sem framundan er. Töluverðar líkur eru á hækkun á tekjuskatti og einnig hefur heyrst um hækkanir á öðrum sköttum ríkisins.

Meðal nýrra hugmynda sem skotið hafa upp kollinum er hvort framkvæmanlegt sé að skattleggja lífeyrissjóðsiðgjöld jafnóðum og þau eru greidd inn í sjóðina, og hætta þar af leiðandi núverandi kerfi sem byggist á því að sjóðsfélagar greiða skatt þegar kemur að lífeyristöku.

Í dag birtist afar athyglisverð grein í Morgunblaðinu eftir tryggingastærðfræðingana Benedikt Jóhannesson og Bjarna Guðmundsson þar sem þeir segja að með því að skattleggja lífeyrisgreiðslur strax geti ríkið náð allt að 30-35 milljörðum króna í ríkissjóð á ári. Þeir tala einnig um að hugsanlega sé þetta ein besta leiðin til að leysa hina brýnu þörf á skatttekjum án þess að valda heimilum búsefjum með hækkunum á álögum.

Þegar mætir menn eins og Benedikt Jóhannesson og Bjarni Guðmundsson, tryggingastærðfræðingar fjölmargra lífeyrissjóða, koma með slíkar tillögur ber ríkisstjórn Íslands að taka þær alvarlega. Skipa þarf færustu hagfræðinga til þess að vega kosti og galla þess að skattleggja lífeyrissjóðsgjöld jafnóðum. Ef hægt er að komast hjá því að stórhækka hér skatta á almenning með því að fara þessa leið þá er til mikils að vinna.

Í greininni er bent á að með þessari hugmynd vinnist eftirfarandi:

  • Ríkið og sveitarfélög þurfa ekki að taka jafnmikil lán og ella
  • Ekki þarf að hækka skattbyrði á almenning
  • Séð er fyrir fjórðungi halla fjárlaga
  • Ráðstöfunartekjur almennings skerðast ekki
  • Neysla dregst ekki meira saman og kreppan dýpkar því ekki
  • Skatturinn fer ekki út í verðlag

Það er gríðarlega mikilvægt eins og áður hefur komið fram að skipaður verði hópur sérfræðinga til að fara yfir þessar tillögur. Til mikils er að vinna til draga úr þeim mikla niðurskurði sem framundan er í ríkisrekstrinum, niðurskurði sem klárlega mun leiða af sér að opinberum störfum mun fækka. Með hækkun á sköttum mun neysla dragast saman sem mun leiða af sér að störf munu tapast við verslun og þjónustu og hækkun á neyslusköttum mun hafa áhrif til hækkunar á verðtryggðum lánum launþega.

Ef hægt er að komast hjá því að draga úr hækkun á sköttum með því að nýta þennan möguleika á skatttöku lífeyrissjóðsgjalda sem skilar ríkissjóði 35 milljörðum, þá er það eitthvað sem ríkisvaldinu ber skylda til að skoða gaumgæfilega.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image