• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
04
Aug

Fundað um breytingu á vinnutilhögun bæjarstarfsmanna

Starfsmenn Akraneskaupstaðar reiðir og sárirStarfsmenn Akraneskaupstaðar reiðir og sárirEins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá skrifaði Verkalýðsfélag Akraness bæjarráði og bæjarstjórn bréf þar sem óskað er eftir því að skipaður verði vinnuhópur sem muni fara yfir þær sparnaðaraðgerðir sem boðaðar hafa verið. Hægt er að lesa bréfið hér.

Bæjarráð Akraneskaupstaðar tók Bréf Verkalýðsfélags Akraness, dags. 9. júlí 2009 fyrir á fundi 30. júlí og var lagt til að starfshópi um hagræðingu og sparnað falið að ræða við fulltrúa Verkalýðsfélagsins. Formaður vonar að þessi fundur verði mjög fljótlega enda er erindið afar brýnt.

Það verður ekki annað séð en að bæjaryfirvöld hafni því hins vegar að stofna vinnuhóp eins og VLFA lagði til vegna þeirra sparnaðaraðgerða sem bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 2. júlí sl. Í þessum vinnuhópi auk bæjaryfirvalda vildi félagið að yrðu  fulltrúar þeirra stéttarfélaga sem eiga aðild að kjarasamningum við Akraneskaupstað auk trúnaðarmanna.

Það er morgunljóst að umræddar sparnaðaraðgerðir munu koma afar illa niður á þeim starfsmönnum bæjarins sem eru með hvað lægstu tekjurnar.  Sem dæmi þá hefur bæjarráð Akraneskaupstaðar ákveðið að breyta vinnutilhögun skólaliða og starfsmanna íþróttamannvirkja. Þessar breytingar hafa þau áhrif að launakjör áðurnefndra aðila eru að lækka frá 10% upp í tæp 15%.

Það er skýlaus krafa Verkalýðsfélags Akraness að bæjaryfirvöld á Akranesi hverfi frá fyrirhuguðum breytingum á vinnutíma skólaliða og starfsmanna íþróttamannvirkja, sem leiða af sér jafnmikla tekjuskerðingu og raun ber vitni.

Það er forkastanlegt að skerða laun sem ekki ná 300.000 kr. eins og áðurnefndar tillögur munu gera. Hér á heimasíðunni hefur birst dæmi um starfsmann sem er með 281.000 kr. í mánaðarlaun sem lækkar um rúmar 30.000 kr. á mánuði miðað við fyrirhugaða breytingu á vinnutilhögun. Þetta er ólíðandi og óviðunandi með öllu.  Enda hafa ráðamenn þjóðarinnar og sveitarfélaga talað um að það eigi að slá skjaldborg um þá sem eru með tekjur innan við 300.000 kr. í mánaðarlaun.

Það ríkir mikil gremja á meðal starfsmanna Akraneskaupstaðar með þessa fyrirætlan bæjaryfirvalda um breytingu á vinnutilhögun sem skerðir laun starfsmanna jafn skelfilega raun ber vitni.  Starfsmenn Akraneskaupstaðar sem tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness vilja fá upplýsingar hvað aðrir hópar innan bæjarins þurfa að leggja af mörkum í þeim sparnaðaraðgerðum sem nú liggja fyrir og nægir að nefna þar forstöðumenn, kennara, starfsmenn í stjórnunarstöðum og æðstu stjórnendur bæjarins.  Það getur ekki verið eðlilegt að ráðast ætíð á þá tekjulægstu þegar kemur að sparnaðarleiðum eins og þessar tillögur klárlega gera.

Það er mat Verkalýðsfélags Akraness að skerðing á launum starfsmanna sem ekki ná 300.000 kr. sé algjörlega ólíðandi og óviðunandi og Verkalýðsfélag Akraness getur alls ekki sætt sig við þessa fyrirætlan bæjaryfirvalda. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image