• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
Aug

Tveir ráðherrar í heimsókn

Tveir ráðherrar ríkisstjórnar Íslands munu koma í heimsókn í Sementsverksmiðjuna hér á Akranesi í kl. 13:00 í dag.   Þeir ráðherrar sem um ræðir eru þær Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra og Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra.

Heimsóknin byrjar á því að fundað verður með starfsmönnum og forsvarsmönnum verksmiðjunnar og að því loknu verður ráðherrunum sýnd verksmiðjan og þá starfsemi sem þar fer fram.

Væntanlega mun verða rætt á fundinum um samdráttinn í sementssölu og ósk forsvarsmanna Sementsverksmiðjunnar um að starfshlutfall starfsmanna verði lækkað tímabundið niður í 50% og að framleiðsla verði stöðvuð um nokkurra mánaða skeið. 

Einnig verður væntanlega rætt um þá gagnrýni Verkalýðsfélags Akraness að íslenska ríkið skuli stuðla að innflutningi á sementi á sama tíma og íslensk sementsframleiðsla á verulega undir högg að sækja. 

Það er Aalborg Portland Helguvík sem er íslenskt fyrirtæki í eigu Dana sem flytur inn sement frá Danmörku og hafa verið flutt inn rúm 20 þús tonn á þessu ári að verðmæti ca 240 milljóna í gjaldeyri.  Í fyrra var flutt inn um 111 þúsund tonn af dönsku sementi. Helsti kúnni Aalborg sem flytur inn danska sementið er Steypustöðin h.f sem er í eigu Íslandsbanka og eins og flestir vita er Íslandsbanki í eigu ríkisins.

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, tók málefni Sementsverksmiðjunnar á Akranesi til umfjöllunar á ríkisstjórnarfundi í fyrradag. Hann segir alvörumál verði Íslendingar háðir innflutningi á sementi. Mjög mikilvægt sé að grípa til aðgerða til að tryggja framtíð íslenskrar sementsframleiðslu.  Ráðherrann hefur leggið undir ámælum fyrir þessa afstöðu sína frá Samtökum verslunar og þjónustu sem er að mati formanns Verkalýðsfélags Akraness óskiljanlegt.

Eitt af hlutverkum stéttarfélaga er að verja störf sinna félagsmanna og á þeirri forsendu fagnar Verkalýðsfélag Akraness stuðningi Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í þessu máli.  Er hægt að gagnrýna ráðherrann fyrir að vilja standa vörð um íslenska framleiðslu sem hefur skilað íslensku þjóðarbúi gríðarlegum arði í gegnum árin og sparað íslensku þjóðinni umtalsverðan gjaldeyrir. 

Að sjálfsögðu eigum við Íslendingar að styðja íslenska framleiðslu og velja Íslenskt og verja íslensk störf.  Gunnar Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóri Sementsverksmiðjunnar sendi frá sér fréttatilkynningu í gær og sagði Gunnar meðal annars þetta:

Aalborg Portland í Danmörku hefur hins vegar frá upphafi lagt töluvert á sig til að bregða fæti fyrir rekstur Sementsverksmiðjunnar. Í þessu samhengi er vert að rifja upp þá staðreynd að danska fyrirtækið seldi sement undir markaðsvirði þegar það var að koma undir sig fótunum hér á landi. Í viðtali Nordjyllands Stiftstidende við forstjóra Aalborg Portland í Danmörku, Sören Vinter, í september 2002 kom fram sú gífurlega áhersla sem fyrirtækið legði á íslenska markaðinn enda hefði það náð 25 prósenta hlutdeild á aðeins tveimur árum. Í viðtalinu segir forstjórinn að hann líti á Ísland sem heimamarkað Aalborg Portland. Hann gekk svo langt að segja að til langs tíma litið yrði ekki pláss fyrir bæði Aalborg Portland og Sementsverksmiðjuna á íslenska markaðnum og Aalborg Portland sæi ákveðin tækifæri í yfirtöku á rekstri Sementsverksmiðjunnar á Akranesi

 

Gunnar sagði einnig í sinni fréttatilkynningu að á krepputímum eins og þeim sem íslenska þjóðin er að ganga í gegnum er nauðsynlegt að verja störf eins og kostur er og hamla gegn stöðnun í samfélaginu. Það verður best gert með því að halda áfram opinberum framkvæmdum eða auka þær ef kostur er, eins og stjórn og starfsmenn Sementsverksmiðjunnar hafa bent á. Einnig er mikilvægt að hið opinbera stuðli að uppbyggingu nýrra stórverkefna á sviði atvinnulífsins víða um land. Á þann hátt skapast fjöldi nýrra atvinnutækifæra sem styður við þá starfsemi sem fyrir er í landinu.

Framleiðsla Sementsverksmiðjunnar er fyllilega samkeppnisfær við sement Aalborg Portland, bæði hvað varðar verð og gæði. Það hlýtur því að teljast eðlilegt að Sementsverksmiðjan hafi sömu möguleika og Aalborg Portland á því að selja steypustöð í eigu ríkisins sement. Stjórnendur og starfsmenn Sementsverksmiðjunnar eru að biðja um jafnan rétt en ekki fyrirgreiðslu frá hinu opinbera.

Sementsverksmiðjan á Akranesi hefur frá upphafi skilað þjóðinni miklum arði. Hún hefur framleitt rúmlega 5,5 milljónir tonna af sementi úr innlendu hráefni og sparaði þjóðinni þann gjaldeyri sem annars hefði verið varið til innflutnings á sementi. Ljóst er að Sementsverksmiðjan mun ekki, frekar en mörg önnur íslensk fyrirtæki í byggingariðnaði, lifa af viðvarandi frostavetur á framkvæmdasviðinu. Núverandi staða mun  á endanum kippa stoðunum undan starfsemi hennar með alvarlegum afleiðingum. Vel á annað hundrað störf glatast, tækniþekking sem byggð hefur verið upp á síðustu áratugum verður að engu og sement, aðlagað að þörfum íslenska markaðarins víkur fyrir innfluttu sementi,"  segir í yfirlýsingu frá Gunnari Sigurðssyni framkvæmdastjóra Sementsverksmiðjunnar

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image