• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Aug

Áskorun til forsvarsmanna N1

Í gær sendi N1 frá sér afkomutilkynningu fyrir fyrstu 6 mánuði ársins. Þar kemur fram að hagnaður af rekstri N1 var 474 milljónir króna á áðurnefndu tímabili en á sama tímabili á síðasta ári var 98 milljóna króna hagnaður af rekstrinum.  Einnig segir í tilkynningunni að kjarnastarfsemi félagsins hafi gengið vel á árinu og reiknað sé með að afkoma ársins verði betri en árið 2008.  Þetta verða að teljast mjög jákvæð tíðindi.

Hins vegar er rétt að rifja það upp að samninganefnd Alþýðusambands Íslands gekk í tvígang frá frestun við Samtök atvinnulífsins á þeim umsömdu launahækkunum sem kveðið var á um í kjarasamningi sem gerður var 17. febrúar 2008.   En í þeim kjarasamningum var kveðið á um að laun þeirra sem störfuðu eftir launatöxtum ættu að hækka um 13.500 kr. 1. mars sl. og þeir sem störfuðu eftir taxtakerfi áttu að hækka um 3,5%.

Eins og flestir muna þá gekk fyrri frestun út á það að launþegar fengu enga hækkun 1. mars sl. eins kjarasamningurinn kvað á um en til stóð að hún kæmi öll til framkvæmda 1. júlí.  Það var ekki heldur staðið við það samkomulag og gengu ASÍ og SA frá öðru samkomulagi í júní þar sem kveðið var á um 6.750 kr hækkun til þeirra sem störfuðu á berstrípuðum launatöxtum og hinn helmingurinn af 13.500 kr. á að koma 1. nóvember nk.

Ástæðan sem gefin var fyrir því að fresta áður umsömdum launahækkunum til verkafólks var bág staða fyrirtækja í kjölfar bankahrunsins og fyrirtæki hefðu ekki bolmagn til að standa við þær launahækkanir sem um hafði verið samið.

Eins og flestir muna þá voru sex landsbyggðafélög á móti því að fresta umsömdum launahækkunum og var Verkalýðsfélag Akraness eitt þeirra.  Formaður félagsins benti m.a. á að það væru klárlega til fyrirtæki sem hefðu fjárhagslega burði til að standa við gerða samninga og nefndi hann t.d. fyrirtæki sem starfa í útflutningi og einnig Olíufélögin sem hafa varpað sínum vanda beint útí verðlagið.  Því miður var samninganefnd Alþýðusambands Íslands ekki sammála Verkalýðsfélagi Akraness í þessu máli.

Rétt er að rifja einnig upp baráttu Verkalýðsfélags Akraness vegna arðgreiðslna HB Granda en þar gagnrýndi Verkalýðsfélag Akraness harðlega að fyrirtækið væri að greiða út arð á sama tíma og fiskvinnslu- og verkafólk var þvingað til að fresta sínum umsömdu launahækkunum.  Eins og flestir muna ákvað HB Grandi að standa að fullu við þær launahækkanir sem áttu að taka gildi 1. mars sl. og það gerðu einnig fjölmörg önnur fiskvinnslufyrirtæki.  Barátta Verkalýðsfélags Akraness skilaði 13.500 kr. hækkun á mánuði til hundruða fólks sem starfar í fiskvinnslu.

Nú kemur í ljós að N1 er að skila um 500 milljónum í hagnað á fyrstu 6 mánuðum þessa árs og reikna forsvarsmenn N1 með að afkoman verði betri á þessu ári hjá fyrirtækinu en á árinu 2008. Til hvers á fyrirtæki sem er að skila slíkum hagnaði að fá afslátt á hóflega gerðum kjarasamningi frá 17. febrúar 2008? Það er engin ástæða til slíks.

Á þeirri forsendu skorar Verkalýðsfélag Akraness á stjórnendur og eigendur N1 að endurgreiða því góða starfsfólki sem hjá því starfar þær hækkanir sem ella hefðu komið til ef ASÍ og SA hefðu ekki gengið frá frestun á áður umsömdum launahækkunum.

Fjárhaglegt tjón bensínafgreiðslumanns vegna þessarar frestunar og linkindar í forystu ASÍ mun nema um eitt hundrað þúsund krónum og munar um minna fyrir verkafólk sem starfar á berstrípuðum lágmarkstöxtum. Stjórn Verkalýðsfélag Akraness hefur lýst því yfir að félagið er tilbúið til að sýna fyrirtækjum sem eru í fjárhagslegum vandræðum skilning og umburðalyndi og þá sérstaklega fyrirtækjum í byggingariðnaði og honum tengdum.

En það er hins vegar alls engin ástæða til að fresta áður umsömdum launahækkunum hjá fyrirtækjum sem selja sínar afurðir erlendis og njóta góðs af þeim gengisbreytingum sem orðið hafa. Einnig olíufyrirtækjunum sem varpa öllum sínum vanda beint útí verðlagið sem síðan hefur áhrif á verðtryggðu lánin okkar. 

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness mun senda stjórn N1 áskorun eftir helgi þar sem þess verður farið á leit við fyrirtækið að það standi í einu og öllu við þann kjarasamning sem gerður var 17. febrúar 2008 í ljósi þess að afkoma fyrirtækisins er góð og stefnir í að verða betri á þessu ári en í fyrra.  Ef fyrirtækið verður við þessari áskorun félagsins þá munu starfsmenn í 100% starfi geta átt von á endurgreiðslu allt að 100.000 kr. og munar um minna fyrir lágtekjufólk sem hefur þurft að horfa uppá stóraukna greiðslubyrði.   

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image