• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Garðar Halldórsson heiðursfélagi Verkalýðsfélags Akraness - minningarorð Garðar fagnar 90 ára afmæli Verkalýðsfélags Akraness ásamt formanni félagsins þann 14. október 2014
27
Oct

Garðar Halldórsson heiðursfélagi Verkalýðsfélags Akraness - minningarorð

Í dag verður jarðsunginn frá Akraneskirkju einn af heiðursfélögum Verkalýðsfélags Akraness, Garðar Halldórsson. Garðar var fæddur þann 8. september 1924 og lést 20. október síðastliðinn, 93 ára að aldri.

Garðar flutti ásamt eiginkonu sinni og börnum til Akraness frá Hríshóli í Reykhólasveit árið 1968 og hóf þá störf í sútunarverksmiðju. Hann komst fljótt í kynni við Skúla Þórðarson sem þá var formaður Verkalýðsfélags Akraness en Garðar gekk formlega í félagið þann 10. desember 1969.

Áður en langt um leið var Garðar orðinn formaður verkamannadeildarinnar og tók svo síðar við starfi ritara í aðalstjórn félagsins og var virkur í starfsemi félagsins allt til ársins 1990. Garðar skipti um starfsvettvang árið 1977 þegar sútunarverksmiðjunni var lokað og hóf þá störf hjá Lífeyrissjóði Vesturlands. Lífeyrismál voru honum afar hugleikin og mætti hann á ársfundi þar löngu eftir starfslok sín og ritaði fundargerðir ársfundarins fram að áttræðisaldri.

Þó svo að Garðar léti af formlegum störfum fyrir félagið um 1990 lét hann sig starfsemi þess alltaf varða, tók meðal annars þátt í ferðalögum eldri félagsmanna og sýndi áhuga á því sem fengist var við hverju sinni í kjarabaráttunni. Garðar fæddist einum mánuði áður en Verkalýðsfélag Akraness var stofnað og því táknrænt að ævi hans hafi fléttast inn í starf félagsins og var hann gerður heiðursfélagi þess. Þegar Verkalýðsfélag Akraness varð 90 ára þann 14. október 2014 mætti hann að sjálfsögðu á skrifstofuna til að fanga þessum merku tímamótum, þá sjálfur nýbúinn að fagna sínu níræðisafmæli.

Garðar var hagmæltur og á félagið þónokkuð af kveðskap eftir hann, meðal annars 12 erinda afmæliskveðju til félagsins sem hann samdi árið 1974 þegar félagið varð 50 ára. Síðasta erindi þeirrar kveðju á vel við enn þann dag í dag:

Fögnum heilum huga
hálfrar aldar starfi.
Strengjum heit að standa
styrk á fengnum rétti.
Sókn til nýrra sigra,
sé vor leiðarstjarna.
Þá mun framtíð færa
farsæld öllum lýðum.

Stjórn og starfsfólk Verkalýðsfélags Akraness minnist Garðars með hlýju og þakklæti og sendir öllum aðstandendum hans innilegar samúðarkveðjur.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image