• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
13
Oct

Þing Starfsgreinasambandsins haldið 11. og 12. október

6. þingi Starfsgreinasambands Íslands sem haldið var á Selfossi daganna 11. til 12. október lauk í gær.  Það má segja að það hafi verið hálfgerð lognmolla yfir þessu þingi að því undanskildu að hart var tekist á um svokallaða tilgreinda séreign.

Því miður hefur nánast engin kynning farið fram um þessa tilgreindu séreign enda var einungis fámennur hópur innan ASÍ sem samdi um hana við Samtök atvinnulífsins. En þessu til viðbótar þá liggur fyrir að ASÍ og SA hafa unnið að því að fá lögum nr. 129/1997 breytt þannig að launafólki verði gert skylt að leggja þessa tilgreindu séreign einungis inn hjá lífeyrissjóðunum og einnig sem er gjörsamlega stórundarlegt að hún verði skerðingarhæf frá greiðslum frá Tryggingastofnun.

Með öðrum orðum ASÍ og SA hafa unnið að því að fá lögum breytt þannig að öllu launafólki sé skylt að leggja þessa tilgreindu séreign einungis inn hjá lífeyrissjóðunum og megi því ekki velja sér annan vörsluaðila.

Eins og áður sagði hefur engin kynning farið fram á meðal launafólks enda hefur fámenn klíka innan ASÍ deilt og drottnað í þessu máli án þess að bera neitt undir hinn almenna félagsmann.

Það var gjörsamlega óskiljanlegt að hlusta á suma forystumenn innan verkalýðshreyfingarinnar tala með því á þingi SGS á Selfossi að þessi svokallaða tilgreinda séreign ætti og þyrfti að vera skerðingarhæf frá Tryggingastofnun og einnig að allar þessar greiðslur yrðu að fara inn til lífeyrissjóðanna.

Formaður félagsins spurði á þinginu hagsmuni hverra forysta ASÍ sé að verja í þessu máli því það er morgunljóst að ekki er verið að verja hagsmuni launafólks með því að semja um nýja tegund af séreignarsparnaði sem mun leiða til þess að launafólk muni skerða greiðslur sínar frá Tryggingastofnun þegar það hefur töku lífeyris. En eins og allir vita þá eru það skerðingar frá TR sem hafa m.a. valdið því að ávinningur launafólks af því að greiða í lífeyrissjóð er því miður oft á tíðum sáralítill.

Þessu mótmælti formaður Verkalýðsfélags Akraness harðlega á þinginu og lagði fram ályktun sem kveður á um að þingið hafni öllum hugmyndum að lagabreytingum sem leiði til þess að svokölluð tilgreind séreign verði skerðingarhæf frá greiðslum frá Tryggingastofnun.

Miklar umræður urðu um þessa ályktun og voru nokkrir forystumenn verkalýðshreyfingarinnar sem fundu henni allt til foráttu en það kom fram breytingartillaga sem var á endanum samþykkt en hún hljóðar svona:

„6. þing Starfsgreinasambands Íslands haldið 11. til 12. október 2017 hafnar alfarið öllum hugmyndum að lagabreytingum á lögum nr. 129/1997 sem gera allar lífeyrisgreiðslur skerðingarhæfar frá greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins.“

Þessa tillögu gátu þingfulltrúar Verkalýðsfélags Akraness stutt enda kemur hún algerlega í veg fyrir að forysta ASÍ geti unnið áfram að því að kalla eftir lagabreytingum sem leiða til þess að tilgreinda séreignin verði skerðingarhæf. 

Formaður telur þetta gríðarlegan sigur fyrir allt launafólk enda verkefni verkalýðshreyfingarinnar að draga úr skerðingum frá greiðslum frá Tryggingastofnun en ekki auka þær skerðingar.

Nú liggur fyrir að SGS sem er stærsta landssamband innan ASÍ hefur ályktað að það hafni alfarið öllum hugmyndum að lagabreytingum á lögum nr. 129/1997 sem gera allar lífeyrisgreiðslur skerðingarhæfar frá greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins.  Því er ljóst að ASÍ mun ekki geta haldið áfram að vinna að þessum lagabreytingum á þessum grunni, svo mikið er víst.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image