• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Sjómannadagurinn 2009 Blómsveigur lagður að minnismerki sjómanna á Akratorgi
05
Jun

Sjómannadagurinn 2009

Eins og venja er verður sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur um allt land næstkomandi sunnudag. Verkalýðsfélags Akraness hefur, eins og undanfarin ár, tekið þátt í skipulagningu og framkvæmd hátíðarhaldanna.

Klukkan 10 að morgni sjómannadags verður minningarstund við minnismerkið í kirkjugarðinum. Að því loknu verður hátíðarguðsþjónusta í Akraneskirkju kl. 11. Þar munu þrír merkismenn í okkar samfélagi verða heiðraðir, þeir Kristján Pétursson fyrrv. skipstjóri á Höfrungi, Þorvaldur Guðmundsson fyrrv. skipstjóri á Akraborginni og yfirhafnarvörður hjá Faxaflóahöfnum og Stefán Lárus Pálsson fyrrv. skipstjóri og útgerðarmaður.

Að messu lokinni verður gengið fylktu liði að minnismerki sjómanna á Akratorgi og blómsveigur lagður að því eftir stutta athöfn.

Akraneskaupstaður mun eftir athöfnina standa fyrir hófi til heiðurs sjómönnunum þremur sem hljóta heiðursmerki sjómannadags.

Verkalýðsfélag Akraness vill óska sjómönnum landsins innilega til hamingju með daginn. Hægt er að lesa um sögu sjómannadagsins með því að smella á meira.

Sjómannadagurinn - saga og uppruni

"Sjómannadagurinn er haldinn fyrsta sunnudag í júní nema hvítasunnu beri upp á hann, þá viku síðar. Hann var fyrst haldinn í Reykjavík árið 1938 en á fáum árum breiddist hann út um öll sjávarpláss og er þar víða mestur hátíðisdagur að jólunum undanskildum. ...

Markmið dagsins eru að efla samhug sjómanna, kynna þjóðinni starf þeirra og minnast drukknaðra. Samtök sjómanna sjá um hátíðhöld á sjómannadaginn.

Sjómannadagurinn tók að nokkru leyti við af hinum gamla lokadegi vetrarvertíðar 11. maí sem miðast hafði við árabáta og seinna vélbáta. ...

Fyrsti undirbúningsfundur að almennum sjómannadegi var haldinn 8. mars 1937. Þangað komu fulltrúar frá Félagi íslenskra loftskeytamanna, Sjómannafélagi Reykjavíkur, Skipstjórafélagi Íslands, Skipstjóra- og stýrimannafélagi Reykjavíkur, Skipstjórafélaginu Kára í Hafnarfirði, Skipstjórafélaginu Ægi, Skipstjórafélaginu Öldunni, Vélstjórafélagi Íslands og Matsveina- og veitingaþjónafélagi Íslands. ...

Fyrsti sjómannadagurinn var haldinn í Reykjavík og á Ísafirði 6. júní 1938 og tókst með miklum ágætum. Talið er að í Reykjavík hafi um tvö þúsund sjómenn tekið þátt í skrúðgöngu frá Stýrimannaskólanum við Öldugötu um Ægisgötu, Túngötu, Aðalstræti, Austurstræti, Bankastræti og Skólavörðustíg að styttu Leifs Eiríkssonar. Lúðrasveit lék fyrir göngunni. ...

Síðan hefur sjómannadagurinn verið haldinn hátíðlegur og með hverju ári fjölgaði þeim stöðum þar sem hann var haldinn. Þegar árið 1940 eru hátíðahöld í Keflavík, á Akranesi, Flateyri, Bolungarvík, Ísafirði, Ólafsfirði, Dalvík, Akureyri og í Vestmannaeyjum. Innan fárra ára hafði þessi hátíðisdagur breiðst út um allt land. ...

Í mörgum kaupstöðum og öðrum sjávarplássum utan Reykjavíkur hefur sjómannadagurinn orðið mesta hátíð ársins á eftir jólum. Umsvið sjómannaráðs á höfuðborgarsvæðinu færðust einnig stöðugt í aukana. Mestu framkvæmdir á vegum þess eru vafalaust Dvalarheimili aldraðra sjómanna....

Árið 1939 efndi sjómannadagsráð til samkeppni um ljóð og lag fyrir sjómannadaginn. Skáld og tónsmiðir brugðust skjótt við og bárust 42 kvæði en 27 göngulög. Fyrstu verðlaun hlaut Magnús Stefánsson (Örn Arnarson) fyrir ljóð sitt „Hrafnistumenn“ við lag eftir Emil Thoroddsen. Hefur það síðan orðið óbeinn einkennissöngur sjómannadagsins. ...

Um sjómannadaginn voru sett sérstök lög árið 1987 þar sem kveðið er á um tímasetningu hans og settar reglur til að tryggja sem flestum sjómönnum frí á sjómannadaginn. Í þeim er einnig ákvarðað að hann skuli vera almennur fánadagur. Hann hafði ekki verið einn fánadaganna í forsetaúrskurði um þá 1944, en snemma varð það almennur siður að draga fána að húni á sjómannadaginn, bæði á landi og á skipum í höfn. Í endurnýjuðum forsetaúrskurði frá 1991 er sjómanndagurinn á sínum stað, einn af ellefu opinberum fánadögum."

Árni Björnsson. "Saga daganna." Mál og menning. Reykjavík 1993. Bls. 144-147.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image