• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Hver eru viðurlög atvinnurekenda sem hafa atvinnulaust fólk í svartri vinnu? Byggingaverkamenn að störfum - myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint
16
Jun

Hver eru viðurlög atvinnurekenda sem hafa atvinnulaust fólk í svartri vinnu?

Sjóðir Atvinnuleysistryggingasjóðs eru óðum að þorna upp og á þeirri forsendu hefur ríkisstjórn Íslands tilkynnt verulega hækkun tryggingagjalds, sem er tekjustofn Atvinnuleysistryggingasjóðs. Áætluð hækkun gjaldsins mun skila ríkissjóði um 12 milljörðum króna á ársgrundvelli.  Það er sorglegt að ríkisvaldið þurfi að leggja þennan viðbótarskatt á atvinnulífið á sama tíma og atvinnulífið getur ekki staðið við þær launahækkanir sem kveðið er á um í hóflegum kjarasamningi frá 17. febrúar 2008.

Það hins vegar grafalvarlegt sem fram kom í máli forsætisráðherra að athugun hafi leitt í ljós að um 10% þeirra sem eru á atvinnuleysisbótum ættu ekki að vera á bótum. Þetta þýðir að um 1.700 manns eru að þiggja atvinnuleysisbætur án þess að eiga rétt á slíku. 

Eins og flestir muna þá gerði Vinnumálastofnun skyndikönnun á byggingarstað nýja tónlistarhússins í maí og kom í ljós að 15 verkamenn sem unnu þar við járnabindingar voru á atvinnuleysisbótum. Þeir voru því á launum hjá íslenskum skattgreiðendum á meðan þeir unnu svarta vinnu. Þessir aðilar voru að sjálfsögðu allir umsvifalaust sviptir sínum bótum.

Við vitum hver viðurlögin eru fyrir launamanninn sem þiggur atvinnuleysisbætur á sama tíma og hann vinnur svarta vinnu. Jú, hann þarf að greiða atvinnuleysistryggingasjóði allt til baka sem hann hefur þegið ásamt því að verða fyrir bótamissi í allangan tíma. Að sjálfsögðu á að taka mjög hart á þessum málum og ekkert nema eðlilegt við það.

Hins vegar vill stjórn Verkalýðsfélags Akraness fá skýrar upplýsingar um það hver séu viðlög þeirra atvinnurekenda sem ástunda það að hafa fólk á atvinnuleysisbótum í svartri vinnu. Það liggur fyrir að oft hafa atvinnurekendur frumkvæðið að því að hafa starfsmenn á svörtum greiðslum. Hver voru t.d. viðurlög þess fyrirtækis sem var með þessa 15 starfsmenn að störfum í nýja tónlistarhúsinu á sama tíma og þeir þáðu atvinnuleysisbætur?

Hví í ósköpunum fær þessi verktaki að halda áfram störfum eftir að hafa verið staðinn að slíkri starfsemi?

Vissulega getur verið töluverður ávinningur fyrir atvinnurekendur að hafa starfsmenn sem ekki eru skráðir launamenn. Þeir komast hjá því að greiða opinber gjöld, veikindarétt og sitt hvað fleira.

Hver eru viðurlögin?  Samkvæmt þeim upplýsingum sem formaður hefur aflað sér þá er það ekki á hreinu hver þau eru. Það þarf að taka gríðarlega hart á þeim atvinnurekendum sem ástunda svarta atvinnustarfsemi og spurning hvort Alþingi Íslendinga þurfi ekki að setja skýr lög þar sem hægt er að beita háum sektum séu þeir staðnir að því að vera með starfsmenn í svartri vinnu.

Formanni félagsins er það fullkunnugt að Vinnumálastofnun hefur ekki mannskap til að sinna því eftirlitshlutverki og eins og kom fram í fréttum í maí þá eru einungis tveir starfsmenn Vinnumálastofnunar sem sinna því að kanna hvort starfsmenn þiggi atvinnuleysisbætur á meðan þeir stunda svarta vinnu. Þessu þarf að breyta með stórauknu eftirliti og nú liggur fyrir að félagsmálaráðherra er að vinna að úrbótum í þessum efnum sem kynntar verða bráðlega.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image