• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Tryggingagjald hækkað um 12 milljarða á ári en launþegar fresta sínum launahækkunum Verkafólk bíður eftir sínum launahækkunum
19
Jun

Tryggingagjald hækkað um 12 milljarða á ári en launþegar fresta sínum launahækkunum

Nú bendir margt til þess að það samkomulag sem gert var þann 25. febrúar sl. um að launahækkanir frá 1. mars taki gildi þann 1. júlí nk. verði ekki að veruleika.

Hins vegar bendir allt til þess að gengið verði að tilboði Samtaka atvinnulífsins sem felur í sér tvískiptingu umsaminna launahækkana sem koma áttu til framkvæmda 1. mars þannig að helmingur, 6.750 kr. bætist við mánaðarlaun nú 1. júlí en helmingur 1. nóvember. Ennfremur verði 3,5% hækkun á laun yfir launatöxtum frestað til 1. nóvember.

Rétt er að benda á að verkamaður sem starfar eftir taxtakerfi hefur nú þegar afsalað sér 54.000 krónum með því að hafa ekki fengið umsamda launahækkun sem taka átti gildi 1. mars sl. Nú er eins og áður sagði allt eins líklegt að enn og aftur verði verkafólk af umsömdum launahækkunum.

Það er með hreinustu ólíkindum að á sama tíma og það á að þvinga verkafólk til að fresta sínum umsömdu launahækkunum þá sé verið að hækka tryggingagjaldið á atvinnulífið umtalsvert eða sem nemur um 12 milljörðum á ársgrundvelli. Það er alveg ljóst að þegar verkafólk frestar sínum hækkunum þá eru það launþegarnir sem sjá um að greiða þetta tryggingagjald sem ríkisstjórnin er nú að setja á atvinnulífið.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefði viljað að Alþýðusamband Íslands mótmælti hækkun tryggingagjalds nú jafn kröftuglega og gert var í nóvember 2001, en í ályktun frá miðstjórn Alþýðusambandsins (sem hægt er að lesa hér) þá kom fram að hækkun á tryggingagjaldinu væri bein aðför að hagsmunum launafólks Þessi hækkun nú er ekkert annað en það, aðför að hagsmunum launafólks.

Af hverju mótmælir Alþýðusamband Íslands ekki núna? Eða er hækkun tryggingagjalds gerð með samþykki ASÍ?

Það gengur einfaldlega ekki upp að leggja þennan skatt á atvinnulífið á sama tíma og verkafólk þarf að afsala sínum umsömdu launahækkunum. Það á að gera skýlausa kröfu um að Seðlabanki Íslands lækki stýrivexti án tafar því eins og fram kom í viðtali við Þór Sigfússon formann Samtaka atvinnulífsins þá er þetta háa vaxtastig að leggja íslenskt atvinnulíf í rúst og óhætt að fullyrða að það sama gildir um íslensk heimili.

Til að gera atvinnulífinu kleyft að standa undir hóflega gerðum kjarasamningum frá 17. febrúar 2008 þá þarf að lækka hér stýrivexti umtalsvert en slíkt myndi klárlega hjálpa atvinnulífinu.

Afstaða stjórnar og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Akraness til kjaraviðræðna við Samtök atvinnulífsins er sú að verkalýðshreyfingin í heild sinni eigi að standa fast á þeirri kröfu að atvinnurekendur standi við þann hóflega samning sem gerður var þann 17. febrúar 2008 og síðar samkomulag frá 25. febrúar 2009.

Rætt var við formann félagsins í kvöldfréttum RUV í gær. Hægt er að hlusta á viðtalið með því að smella hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image