• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
22
Jun

Formannafundur ASÍ á morgun

Boðað hefur verið til formannafundar Alþýðusambands Íslands á morgun kl. 15:00 og verður fundurinn haldinn á Grand Hóteli við Sigtún.

Á dagskrá fundarins eru kjaramál og stöðugleikasáttmálinn sem unnið hefur verið að á undanförnum vikum. Á undan fundi formanna ASÍ-félaga munu formenn Starfsgreinasambands Íslands funda þar sem þessi sömu mál verða til umfjöllunar.

Eins og flestir vita þá hafa Samtök atvinnulífsins tilkynnt að þeir muni ekki standa við það samkomulag sem gert var þann 25. febrúar sl. en hafa hins vegar boðið fram annað tilboð sem kveður á um að helmingurinn, 6.750 kr., bætist við mánaðarlaun nú 1. júlí en helmingur 1. nóvember. Ennfremur verði 3,5% hækkun á laun yfir launatöxtum frestað til 1. nóvember.

Afstaða Verkalýðsfélags Akraness hefur verið hvellskýr í þessu máli, en félagið vill að atvinnurekendur standi við áður gert samkomulag og taxtahækkun upp á 13.500 kr. taki gildi 1. júlí nk. eins og um hafði verið samið.

Sé það hins vegar vilji meirihluta verkalýðshreyfingarinnar að ganga frá samkomulagi sem kveður á um annað þá mun Verkalýðsfélag Akraness una þeirri niðurstöðu, en gerir það jafnframt að kröfu sinni að það tilboð frá SA sem nú liggur fyrir verði lagt í allsherjaratkvæðagreiðslu á meðal þeirra félagsmanna sem vinna eftir umræddum kjarasamningum. Það er algjört lykilatriði að það verði launþegar sjálfir sem taki ákvörðun um það hvort fresta eigi áður umsömdum hækkunum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image