• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Réttindin á Grundartangasvæðinu verða varin með kjafti og klóm Starfsfólk Fangs
24
Jun

Réttindin á Grundartangasvæðinu verða varin með kjafti og klóm

Á laugardaginn var gekk Elkem Ísland frá samkomulagi við ISS Ísland sem felur í sér að ISS tekur yfir rekstur mötuneytis, ræstinga, þvottahúss og saumastofu. Þeir sem hafa séð um þessa starfsemi hingað til eru starfsmenn Fangs, en Fang er í 100% eigu Elkem Ísland.

Formanni Verkalýðsfélags Akraness og starfsmönnum voru kynntar þessar breytingar á mánudaginn var. Formaður félagsins fundaði síðan með forsvarsmönnum ISS til að fá upplýsingar um hvernig þeir hyggist haga starfseminni bæði hvað varðar vinnutilhögun sem og launakjör starfsmanna.

Fram kom í máli forsvarsmanna ISS að öllum núverandi starfsmönnum verður boðið að starfa áfram, en þeir útiloka hins vegar ekki að til hagræðingar muni koma.

Varðandi launakjör þá býðst núverandi starfsmönnum að halda þeim launakjörum sem þeir hafa, en voru ekki tilbúnir að svara því hvort gildandi fyrirtækjasamningur við Fang verði áfram við lýði heldur vísuðu þeir á Samtök atvinnulífsins hvað það varðar.

Formaður gerði forsvarsmönnum ISS algerlega grein fyrir því að sá samningur sem gildir um þau störf sem þarna eru unnin mun áfram verða við lýði, ella muni starfsmenn og félagið grípa til róttækra aðgerða.

Til að útskýra málið þá liggur fyrir að gríðarlegir hagsmunir eru í húfi fyrir allt Grundartangasvæðið. Ef stóriðjufyrirtækin Elkem Ísland og Norðurál ætla að fara í auknu mæli að setja hluta af sinni starfsemi í verktöku mun það leiða til þess að þau réttindi sem barist hefur verið fyrir í tugi ára þurrkast út við slík útboð.

Í dag njóta þeir sem starfa eftir fyrirtækjasamningi sem Verkalýðsfélag Akraness gerði fyrir starfsmenn Fangs mjög góðra réttinda og sem dæmi þá er starfsmaður sem hefur starfað í 10 ár hjá Fangi með 191 þúsund krónur í grunnlaun. Þessu til viðbótar eru réttindi eins og ferðapeningar, 6% bónus, orlofs- og desemberuppbætur upp á yfir 200 þúsund krónur á ári og mun víðtækari uppsagna- og veikindaréttur en þekkist á hinum almenna vinnumarkaði.

Formanni reiknast til að ef ekki tekst að tryggja núverandi fyrirtækjasamning starfsmanna þá getur munað tugum þúsunda á mánuði fyrir starfsmann sem tæki laun eftir kjarasamningi á Grundartanga eða kjarasamningi á hinum almenna vinnumarkaði. Á þeirri forsendu getur það verið gríðarlegur hvati fyrir forsvarsmenn ISS að ráða nýja starfsmenn í þau störf sem þarna eru unnin ef ef ekki tekst að tryggja að fyrirtækjasamningur haldi gildi sínu.

Það er morgun ljóst að Verkalýðsfélag Akraness mun berjast með kjafti og klóm fyrir því að þau réttindi sem barist hefur verið fyrir á síðustu áratugum haldi gildi sínu og verður hvergi hvikað frá í þeirri baráttu.

Formaður átti fund með starfsmönnum í morgun og hefur verið tekin ákvörðun um það að starfsmenn skrifa ekki undir nýja ráðningasamninga fyrr en Verkalýðsfélag Akraness hefur tryggt það að ISS Ísland yfirtaki núverandi fyrirtækjasamning með öllum þeim skyldum og réttindum sem í honum er kveðið á um.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image