• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Mjög góð þátttaka á 1. maí Fjöldi fólks í kröfugöngunni í dag
01
May

Mjög góð þátttaka á 1. maí

Hátíðarhöldin vegna 1. maí heppnuðust einstaklega vel á Akranesi í dag.  Þó nokkur  fjöldi fólks kom í hina árlegu kröfugöngu í tilefni dagsins.

Hins vegar var salurinn þar sem hátíðardagskráin fór fram fullur af fólki. Boðið var uppá tónlistaratriði sem voru flutt annars vegar af Kvennakórnum Ym og hins vegar af Grundartangakórnum.

Í lokin var boðið upp á glæsilegar kaffiveitingar sem Kvennakórinn Ymur sá um.

Hátíðarræðuna flutti formaður Verkalýðsfélags Akraness.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, sagði í ávarpi sínu í tilefni af baráttudegi verkalýðsins í dag að hann telja það vera forgangsverkefni verkalýðshreyfingarinnar að berjast af alefli fyrir því að lágmarkslaun hækki umtalsvert.

Þá sagði hann það eitt af grundvallaratriðunum til að ná sátt í þessu samfélagi, að sannleikurinn varðandi efnahagshrun íslensku þjóðarinnar verði til lykta leiddur.

Vilhjálmur sagði verkalýðsshreyfinguna og lífeyrissjóði landsmanna hafa ekki farið varhluta af þeirri gagnrýni sem fram hafi farið í þjóðfélaginu á undanförnum mánuðum um skort á siðferði, gegnsæi og trúverðugleika. Sagði hann mjög alvarlegt að græðgin hafi teygt anga sína inn í starfsemi lífeyrissjóðanna og nefndi sem dæmi laun forstjóra sumra lífeyrissjóða sem nemi allt að 30 milljónum á ári. Ljóst sé að trúverðugleikinn hafi beðið hnekki sem bregðast verði við. 

Þá sagði hann það vekja  stórfurðu hjá íslensku þjóðinni að ekki einn einasti aðili að æðstu stjórnendum fjármálakerfisins skuli hafa verið látinn sæta ábyrgð vegna bankahrunsins. Það sé skýlaus krafa hjá þessari þjóð að menn verði dregnir til ábyrgðar og að aldrei muni ríkja sátt í íslensku samfélagi verði þeir sem bera ábyrgð á því hvernig komið er fyrir íslenskri þjóð ekki látnir sæta þeirri ábyrgð sem þeim beri.

Hægt er að lesa ræðu formanns félagsins í heild sinni með því að smella á meira.

Ég vil byrja á því að óska okkur til hamingju með daginn.

 

Það er þyngra en tárum taki að horfa uppá það ástand sem nú ríkir í íslensku samfélagi.  Að hugsa sér kæru félagar að örfáir einstaklingar skuli hafa náð að rústa íslensku efnahagslífi með jafn afgerandi hætti og nú blasir við okkur, er ótrúlegt.  Alþýða þessa lands hefur á undanförnum misserum spurt sig hverjir beri ábyrgð á þessum hamförum.  Í mínum huga og margra annarra liggur það ljóst fyrir hverjir bera þessa ábyrgð en það eru stjórnendur fjármálastofnana og þær eftirlitstofnanir sem áttu að hafa eftirlit með fjármálakerfinu, þessir aðilar brugðust sínu hlutverki.

Eftir á að hyggja er grátbroslegt að horfa á hvernig æðstu stjórnendur fjármálastofnana voru bornir hér á gullstól hvert sem þeir komu. Ávalt var rennt út rauðum dregli þar sem þessir snillingar komu, snillingar sem bera nú ábyrgð á því að vera búnir að eyðileggja orðspor heillar þjóðar á erlendri grundu. Þessir sömu aðilar bera mikla ábyrgð á atvinnuleysi um 19 þúsund einstaklinga, gríðarlegri aukningu á gjaldþrotum fyrirtækja og einstaklinga og stóraukinni greiðslubyrði heimilanna. Og ekki má gleyma því að þessir sömu aðilar bera ábyrgð á því að aldraðir og venjulegt launafólk tapaði stórum hluta af sínum ævisparnaði.

Í síðustu viku skilaði ráðgjafafyrirtækið Oliver Væman mati á stöðu nýju bankanna til fjármálaeftirlitsins. Þetta mat hefur enn ekki verið gert opinbert, en í því kemur fram að núverandi staða Íslands er verri en nokkur kreppa sem einstök þjóð hefur þolað síðan í kreppunni miklu. Það er einnig mat ráðgjafa fyrirtækisins að íslenska bankakreppan sé sú alvarlegasta sem hefur hent þjóðríki í 80 ár. Þökk sé þeim útrásarvíkingum sem stjórnuðust af græðgisvæðingunni einni saman.

Það vekur stórfurðu hjá íslensku þjóðinni að ekki einn einasti aðili að æðstu stjórnendum fjármálakerfisins skuli hafa verið látinn sæta ábyrgð. Það er skýlaus krafa hjá þessari þjóð að þessir menn verði dregnir til ábyrgðar og mín persónulega skoðun er sú að það hefði átt að vera löngu búið að frysta eigur þessara manna á meðan rannsókn færi fram. Þetta er eitt af grundvallaratriðunum til að ná sátt í þessu samfélagi, að sannleikurinn varðandi efnahagshrun íslensku þjóðarinnar verði til lykta leiddur. Það mun aldrei ríkja sátt í íslensku samfélagi ef þeir sem bera ábyrgð á því hvernig komið er fyrir íslenskri þjóð verða ekki látnir sæta þeirri ábyrgð sem þeim ber.

 

Kæru félagar

Þið sem hafið fylgst með kjarasamningsgerð á hinum almenna vinnumarkaði í gegnum árin kannist við öll þau varnaðarorð sem heyrast víða í samfélaginu þegar kemur að því að gera kjarasamninga fyrir verkafólk.  Þessi varnaðarorð kveða ávalt á um að ekki sé hægt að hækka laun verkafólks sem neinu nemur. Varnaðarorðin byggjast ávallt á því að fái verkafólk einhverja leiðréttingu á sínum launakjörum þá fari allt til fjandans í íslensku samfélagi.

Við gerð síðasta kjarasamnings á hinum almenna vinnumakaði sem var undirritaður 17. febrúar 2008 lögðu ráðamenn þjóðarinnar, Seðlabankastjóri og síðast en ekki síst forstöðumenn greiningadeilda bankanna mikla áherslu á að verkalýðshreyfingin gengi frá hófstilltum samningum til að stuðla að stöðugleika í íslensku samfélagi.

Verkalýðshreyfingin tók þá ákvörðun að ganga frá hófstilltum og skynsömum kjarasamningum sem höfðu það markmið að hækka laun þeirra tekjulægstu.

Þegar að kjarasamningurinn á hinum almenna vinnumarkaði var undirritaður þann 17. febrúar 2008 var verðbólgan 5,1%. Með þessu taldi verkalýðshreyfingin að hún væri að tryggja hér stöðugleika og stuðla að lækkandi verðbólgu. Þetta var framlag íslensks verkafólks til þess að stuðla hér að stöðugleika og auknum kaupmætti.

Það er skemmst frá því að segja að á sama tíma og ráðamenn þessarar þjóðar og forstöðumenn greiningadeilda bankanna voru að hvetja verkalýðshreyfinguna til að ganga frá hófstilltum kjarasamningum þá blikkuðu öll aðvörunarljós um að bullandi leki væri kominn að þjóðarskútunni og bankakerfið væri nánast að hrynja eins og spilaborg.

Í febrúar 2008 var stjórnvöldum og eftirlitsstofnunum orðið fullkunnugt um í hvað stefndi með íslenska fjármálakerfið. Þrátt fyrir það fóru ráðamenn þessarar þjóðar í ferðir erlendis til að breiða út þann boðskap að íslenska bankakerfið stæði traustum fótum þó svo að fyrir lægju skýrslur sem kváðu á um hið gagnstæða.

Á sama tíma og íslenskt verkafólk var tilbúið að axla sína ábyrgð í sinni kjarasamningsgerð til að viðhalda hér stöðugleika og leggja grunn að auknum kaupmætti þá voru íslensku bankarnir nánast rændir innan frá af aðilum sem stjórnuðust af græðgisvæðingu einni saman.

Græðgisvæðing þessara manna birtist íslenskri alþýði með afgerandi hætti í þeim launakjörum sem æðstu stjórnendur fjármálageirans höfðu skammtað sér og nægir að nefna laun bankastjóra Kaupþings árið 2007 upp á 64 milljónir á mánuði, árslaun sem námu 700 milljónum króna. Eða þegar bankastjóri Glitnis fékk 300 milljónir fyrir það eitt að hefja störf hjá bankanum.

Þegar Verkalýðshreyfingin og fleiri aðilar gagnrýndu kaupréttarsamninga, bónusa og önnur ofurlaun hjá starfsmönnum fjármálastofnana þá komu skýr svör frá þeim aðilum sem þáðu þessi ofurlaun: Ykkur grálúsuga almúganum kemur þetta ekkert við.

Raunin hefur hins vegar orðið allt önnur, okkur kom þetta svo sannarlega við. Ég tala nú ekki um þegar þessir snillingar eru búnir að veðsetja íslenska þjóð upp í rjáfur vegna Ice-Save reikninganna í Bretlandi og Hollandi, og það án vitundar meginþorra almennings.

Á þessu sést svo ekki verður um villst að þær hamfarir sem riðið hafa yfir íslenskt samfélag eru ekki íslensku verkafólki um að kenna svo mikið er víst.  Hins vegar bitnar hrun fjármálakerfisins harðast á þeim sem síst skyldi.  Það er margt sem bendir til að það muni enn og aftur koma í hlut verkafólks að rétta þjóðarskútuna við, það verður íslensk alþýða þessa lands sem mun koma til með að þurfa að ausa þjóðarskútuna.  Það nægir að nefna að verkafólk var þvingað til að fresta umsömdum launahækkunum sem áttu að koma til 1. mars sl. vegna þess ástands sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi og það þrátt fyrir að hafa gengið frá hófstilltum kjarasamningum.

Það er einnig rétt að nefna það að ríki, sveitarfélög, verslunareigendur og aðrir þjónustuaðilar varpa sínum kostnaðarhækkunum og sínum vanda beint útí verðlagið.  Á meðan þurfa aldraðir, öryrkjar og launþegar þessa lands að sæta gríðarlegri kjaraskerðingu vegna þeirra efnahagshamfara sem nú ríða yfir þetta samfélag.  Þessir aðilar hafa enga möguleika á að varpa sínum vanda yfir á aðra.  Það gengur ekki upp í mínum huga að alþýða þessa lands þurfi ein og sér að taka á sig auknar byrðar á meðan verslunareigendur og opinberir aðilar varpa sínum vanda yfir á almenning í þessu landi.  Það verða allir að axla sína ábyrð, ekki bara íslenskir launþegar.

Það er vægast sagt sorglegt að horfa uppá að sá ávinningur sem síðasti kjarasamningur á hinum almenna vinnumarkaði átti að skila til verkafólks skuli allur hafa horfið og miklu meira til.  Allt vegna græðgisvæðingar útrásavíkinga og aðgerðaleysis eftirlitsstofnana.

 

Kæru samherjar

Verkalýðshreyfingin og lífeyrissjóðir landsmanna hafa ekki farið varhluta af þeirri gagnrýni sem fram hefur farið í þjóðfélaginu á undanförnum mánuðum um skort á siðferði, gegnsæi og trúverðugleika. Mér er algerlega ljóst að trúverðugleikinn hefur beðið hnekki sem bregðast verður við.

Fulltrúum launafólks í verkalýðshreyfingunni og lífeyrissjóðunum ber að hafa forgöngu um að bæta og skýra reglur um gegnsæi og siðferði í starfsemi verkalýðsfélaganna og lífeyrissjóðanna. Það er mjög alvarlegt þegar græðgin hefur teygt anga sína inn í starfsemi lífeyrissjóðanna og nægir að nefna laun forstjóra sumra lífeyrissjóða sem nema allt að 30 milljónum á ári. Slík launakjör eru ekki í neinum takti við það sem er að gerast í samfélaginu og ljóst að verkalýðshreyfingin verður að taka á þessum málum af fullum þunga enda er ekki hægt að bjóða sjóðsfélögum upp á að forstöðumenn lífeyrissjóðanna þiggi slík laun á sama tíma og sjóðsfélagar þurfa að þola skerðingar á sínum lífeyrisgreiðslum.

Ég spyr líka, hvar liggur ábyrgð þessara einstaklinga sem þiggja slík ofurlaun þegar að nú liggur fyrir að lífeyrissjóðakerfið er að tapa tugum milljörðum króna? Málið er einfalt, ofurlaun og ábyrgð fylgjast greinilega ekki alltaf að.

Varðandi verkalýðshreyfinguna þá hefur mér persónulega fundist því miður oft og tíðum vanta meiri slagkraft í hana og sem dæmi þá erum við að súpa seyðið af þeim lágu lágmarkslaunum sem við bjóðum okkar félagsmönnum upp á. Nú þegar þrengir að á vinnumarkaðnum þá liggur fyrir að atvinnurekendur eru að skera niður öll umframkjör í ráðningarsamningum fólks og oft og tíðum dettur launafólk niður á berstrípaða taxtana.  Þeir lágmarkstaxtar sem eru í gildi í dag eru  íslensku samfélagi og verkalýðshreyfingunni til skammar.

Ég tel það vera forgangsverkefni verkalýðshreyfingarinnar að berjast af alefli fyrir því að lágmarkslaun hækki umtalsvert og t.a.m. í síðustu kjarasamningum þá lagði Verkalýðsfélag Akraness til að lágmarkslaun yrðu 170 þúsund krónur við undirskrift samningsins. Því miður náðist það ekki fram en mitt persónulega mat er það að ef verkalýðshreyfingin hefði staðið fast í lappirnar hvað þá kröfu varðar þá hefði verið hægt að ná mun lengra en raunin varð. Ég vil fá að sjá sama kraft og frumkvöðlanir verkalýðshreyfingarinnar bjuggu yfir fyrir mörgum áratugum síðan, þessir einstaklingar voru tilbúnir til að berjast af alefli fyrir bættum kjörum sinna félagsmanna.

Verkalýðshreyfingin í heild sinni getur lært margt af frumkvöðlunum sem börðust af elju og atorkusemi fyrir bættum hag verkafólks.  Við megum aldrei gleyma þeirri þrot- og miskunnarlausu baráttu sem frumkvöðlanir háðu hér á árum áður oft á tíðum á hugsjóninni einni saman.

Þetta verða núverandi forystumenn verkalýðshreyfingarinnar að hafa að leiðarljósi í sínum störfum.

 

Kæru félagar

Vandi margra heimila er gríðarlegur um þessar mundir. Því spyr ég: Hvernig hyggjast stjórnvöld leysa vanda þess fólks sem tekið hefur erlend lán sem hafa hækkað um stjarnfræðilegar upphæðir? Nægir að nefna í því samhengi að einstaklingur sem tók 16 milljóna króna húsnæðislán í erlendri mynt árið 2007 til 20 ára skuldar í dag 37 milljónir.

Að hugsa sér að bankarnir hvöttu einstaklinga til að taka erlend lán til íbúðarkaupa og á sama tíma tóku bankarnir stöðu gegn krónunni til að fegra hjá sér efnahagsreikning á 3 mánaða fresti allt á kostnað grandalausra viðskiptavina.

Vinnubrögð af þessu tagi er ekkert annað en algjör glæpamennska.

Samkvæmt úttekt sem ég hef gert tóku 50.000 einstaklingar svokölluð gengistryggð lán til bílakaupa. Þessir aðilar voru nánast allir hvattir til að taka slík lán.  Þessi lán hafa mörg hver hækkað um allt að 100% og mánaðarlegar afborganir hækkað um tugi þúsunda. Vandi þessa fólks hefur lítið sem ekkert verið til umræðu á meðal ráðamanna þessarar þjóðar.

Það er alveg ljóst að stjórnvöld verða að grípa til mjög róttækra aðgerða vegna vanda heimilanna. Það er talað um að 40.000 einstaklingar búi við neikvæða eiginfjárstöðu eða með öðrum orðum, þeir skulda meira en þeir eiga. Þetta er þriðjungur allra heimila í landinu.

Það liggur einnig fyrir að þetta á einungis eftir að versna. Seðlabankinn gerir fastlega ráð fyrir því að fasteignaverð eigi eftir að falla um 40 – 50% að raungildi.

Það verður að koma í veg fyrir það að einstaklingar sjái engan hag í því lengur að borga af sínum eignum. Það blasir við að þegar skuldir eru orðnar langt umfram eignir þá er nánast enginn hvati fyrir fólk að halda slíkri baráttu áfram. Við þessu verður að bregðast með sértækum aðgerðum sem munu koma í veg fyrir að fólk gefist einfaldlega upp.

Sú staða getur klárlega komið upp að þúsundir heimila taki þá ákvörðun að hætta að greiða af sínum skuldum. Það má heldur ekki gleyma því að þegar að þessir einstaklingar stofnuðu til sinna skuldbindinga þá höfðu þeir fullkomlega greiðslugetu til að standa við sínar skuldbindingar. En vegna þeirra hamfara sem  skollið hafa yfir Íslendinga eru þær forsendur kolbrostnar og við því verður að bregðast með afgerandi hætti.

Það verða að koma skýr svör frá stjórnvöldum um það hvernig koma á heimilum landsins, sem mörgum hverjum er að blæða út um þessar mundir, til hjálpar.

 

Kæru félagar

Eitt af brýnustu verkefnum nýrrar ríkisstjórnar verður klárlega að koma tannhjólum atvinnulífsins aftur af stað. Til þess að það geti orðið að veruleika þá þarf að veita súrefni inn í nýju bankana og gera þá starfhæfa til útlánastarfsemi að nýju. Það er ekki hægt að horfa upp á að 19 þúsund einstaklingar séu án atvinnu hér á landi. Við verðum að bregðast við því með öllum tiltækum ráðum.

Það þarf að lækka vexti hér á landi án tafar enda þola hvorki heimilin né fyrirtækin það vaxtastig sem hér hefur verið við lýði allt of lengi enda er það allt lifandi að drepa.

Það þarf að auka aflaheimildir í þorski umtalsvert og er að mínu mati engin áhætta tekin með því að auka aflaheimildir næstu þrjú fiskveiðiárin í 200.000 tonn enda staðfestir sú mikla fiskgegnd á undanförnum árum það. Með þessu skapast umtalsverðar útflutningstekjur og fjöldi starfa.  Það þarf að stöðva útflutning á óunnum gámafiski en í dag eru um 60 þúsund tonn send út óunnin.  Það er alveg ljóst að slík ákvörðun myndi skapa fjölmörg störf í fiskvinnslunni.  Það þarf einnig að vinda ofan af því fiskveiðistjórnunarkerfi sem nú er við lýði hér á landi, enda hefur núverandi kerfi leikið margar byggðir þessa lands afar grátt.  Það gengur ekki að útgerðamenn geti tekið einhliða ákvörðun um að selja sínar aflaheimildir og skilið fiskvinnslufólk og sjómenn eftir atvinnulaust og í átthagafjötrun.  það þarf að skila auðlindum hafsins aftur til þjóðarinnar.

Ég vil ekki hugsa þá hugsun til enda ef við Akurnesingar hefðum ekki þær styrku stoðir í okkar samfélagi sem stóriðjan er.  Á Grundartanga starfa um 1000 manns fyrir utan afleidd störf.   Það er með hreinustu ólíkindum að til skuli vera stjórnmálamenn sem leggja stein í götu þessara fyrirtækja sem eru að skapa hér trygga atvinnu og sem dæmi þá greiddi Norðurál fjóra milljarða í opinber gjöld á síðasta ári. Það þarf að tryggja áframhaldandi rekstraröryggi stóriðjufyrirtækja í þessu landi.

Nú liggur fyrir gríðarlegur niðurskurður hjá hinu opinbera í ljósi þess að fjárlagahallinn í ár er um 153 milljarðar. Einnig liggur það fyrir að halli ríkissjóðs næstu árin verður umtalsverður. Það er mat mitt að það sé grundvallaratriði að þegar kemur að niðurskurði í ríkisútgjöldum þá verði slegin skjaldborg um þá starfsmenn sem eru með hvað lægstu launin. Ef koma þarf til skerðingar á launum þá verði það að bitna á þeim sem eru með hvað hæstu tekjurnar.  Það þarf einnig að slá skjaldborg um íslenska velferðakerfið og það þarf einnig að huga vel að öldruðum þegar kemur að niðurskurði hjá hinu opinbera.

Flestum hagfræðingum ber saman um það að sú peningamálastefna sem hér er við lýði sé gengin sér til húðar og ljóst að við verðum að taka upp nýjan gjaldmiðil. Mín persónulega skoðun er sú að við eigum að sækja um aðild að Evrópusambandinu, kalla fram kosti og galla og leggja í dóm þjóðarinnar. En það er morgunljóst að ef við náum ekki að tryggja auðlindir þjóðarinnar til sjávar og sveita í þeim aðildarviðræðum sem fram færu við Evrópusambandið þá höfum við ekkert þar inn að gera.

 

Kæru félagar.

Kjörorð dagsins er hvernig byggjum við upp réttlátara þjóðfélag.  Það vita það allir sem hér eru inni að bilið á milli fátækra og ríkra hefur breikkað gríðarlega á undanförnum árum og áratugum.  Græðgin hefur farið eins og hvirfilbylur um íslenskt samfélag á undanförnum árum og þegar einn bankastjóri er með árslaun á við 426 verkamenn þá er orðið eitthvað mikið að í okkar samfélagi.

Í fyrradag birti olíufyrirtækið N1 ársreikninga sína þar kom fram aðforstjóri fyrirtækisins væri með 30 milljónir í árslaun og stjórnarformaðurinn Bjarni Benediktsson með 4,8 milljónir í árslaun. Á sama tíma og þessi ofurlaun eru greidd þá þurftu almennir starfsmenn N1 að fresta sínum umsömdu launahækkunum upp á 13.500 krónur. Því spyr ég: byggjum við upp réttlátt samfélag með svona mismunun?

Ég vonast hins vegar til þess að það efnahagshrun sem nú hefur riðið yfir íslenskt þjóðfélag geri það að verkum að ofurlaun af þessari stærðargráðu heyri nú sögunni til.

Því miður hafa gildi eins og græðgi, sérhagsmunagæsla og hroki í garð almennings fengið að grasera í okkar samfélagi á liðnum árum.  Það þarf að taka upp ný gildi í íslensku samfélagi, gildi sem lúta að réttlæti, jöfnuði og virðingu. Þannig byggjum við upp réttlátara þjóðfélag  

 

Kæru samherjar að lokum vil ég segja þetta.

Íslenska þjóðin mun vinna sig út úr þeim dimma dal sem útrásavíkingarnir komu okkur í.  Það eru fáar þjóðir þessa heims sem búa yfir jafn ríkum auðlindum og við Íslendingar.  Nægir að nefna auðlindir hafsins sem og orkuna í iðrum jaðrar svo ég tala nú ekki um þann mannauð sem íslenska þjóðin býr yfir.  Með samstilltu átaki mun okkur takast að byggja hér samfélag sem byggist á jöfnuði, réttlæti og virðingu. Það er þjóðfélag sem við viljum sjá. Það er réttlát þjóðfélag.

Takk fyrir gott hljóð

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image