• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Gríðarleg vonbrigði Sjávarútvegsráðherra í hvalskurði á árum áður
06
May

Gríðarleg vonbrigði

Nú liggur fyrir að ekki verður unnið hrefnukjöt hér á Akranesi eins og til stóð en hrefnuvinnslan hefði skilað allt að 30 nýjum störfum ef af hefði orðið.

Félag hrefnuveiðimanna hefur hins vegar náð samkomulagi við kjötvinnsluna Esju í Reykjavík um að þar verði hrefnukjöt komandi vertíðar unnið, en veiðar hefjast eftir hálfan mánuð. Gunnar Bergmann Jónsson framkvæmdastjóri Félags hrefnuveiðimanna segir að yfirlýsingar Steingríms J. Sigfússonar sjávarútvegsráðherra um endurskoðun hvalveiða eftir þessa vertíð og hugsanlega stöðvun þeirra hafi kippt stoðunum undan áformum um uppsetningu vinnslustöðvar á Akranesi. Þá hafi yfirvofandi lokun Faxaflóasvæðis vegna hvalaskoðunar þýtt að vinnslustöð á Akranesi væri óhagkvæm. Hér er um áfall að ræða fyrir atvinnulíf á Akranesi enda voru bundnar miklar vonir við að vinnslan myndi skapa fjölda starfa eins og áður hefur komið fram.

Þetta eru gríðarleg vonbrigði og er þar vægt til orða kveðið, en Verkalýðsfélag Akraness og bæjaryfirvöld hafa lagt mikla vinnu í að tryggja að þessi vinnsla yrði að veruleika hér á Akranesi.  Sem dæmi þá stóð VLFA og Akraneskaupstaður fyrir gríðarlega fjölmennum borgarafundi þann 5. febrúar sl.  En eins og flestir muna þá hafði núverandi sjávarútvegsráðherra í hyggju að afturkalla ákvörðun fyrrverandi sjávarútvegsráðherra um að heimila hvalveiðar að nýju.

Það er grafalvarlegt af það reynist rétt að yfirlýsingar Steingríms J. Sigfússonar sjávarútvegsráðherra um endurskoðun hvalveiða eftir þessa vertíð og hugsanlega stöðvun þeirra hafi kippt stoðunum undan áformum um uppsetningu vinnslustöðvar á Akranesi. 

Formaður Verkalýðsfélags Akraness harmar þessa ákvörðun forsvarsmanna Félags hrefnuveiðimanna og átelur vinnubrögð sjávarútvegsráðherra ef það reynist rétt að yfirlýsingar hans hafi orðið þess valdandi að tugir starfa hér á Akranesi urðu að engu.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image