• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
08
May

Hækkandi álverð mun auðvelda kjarasamningsgerð

Gríðarlega jákvæðar fréttir berast nú um hækkun á heimsmarkaðsverði á áli en álverð hefur hækkað um 27% frá því í lok febrúar. Þá var álverðið í sögulegu lágmarki eða í 1.250 dollurum fyrir tonnið en í dag stendur tonnið í 1.585 dollurum.

Vissulega er mikil birgðasöfnun á óseldu áli og hafa þær birgðir verið að aukast á síðustu vikum og mánuðum. Er nú talið að um 4 milljónir tonna af áli séu óseld á heimsvísu. Stafar það fyrst og fremst af miklum samdrætti í bíla- og flugiðnaði.

Hins vegar er það mjög jákvætt að engin birgðasöfnun skuli hafa átt sér stað hjá Norðuráli á Grundartanga sökum þess að þeir hafa gert langtímasamninga um sölu á sínu áli og ná þeir samningar til ársins 2016 og að hluta til ennþá lengra. Þetta tryggir að engin birgðasöfnun á að eiga sér stað hjá Norðuráli.

Eins og áður hefur komið fram á heimasíðu félagsins þá skiptir stóriðjan á Grundartanga okkur Akurnesinga alveg gríðarlega miklu máli hvað varðar atvinnuöryggi og tekjur sveitarfélaganna hér í nágrenninu og vill formaður ekki hugsa þá hugsun til enda ef stóriðjunnar á Grundartanga nyti ekki við.

Móðurfélag Norðuráls, Century Aluminium, lokaði t.a.m. nýverið verksmiðju sinni í Vestur Virginíu í Bandaríkjunum. Hins vegar er staðan hér á landi mjög góð og endurspeglast af hagstæðum samningi við Landsvirkjun um raforku. Samningurinn byggist á því verði sem fæst fyrir álið hverju sinni. Með öðrum orðum, ef gott verð fæst fyrir álið þá greiðir Norðurál meira fyrir raforkuna, en þarf að sama skapi að greiða minna þegar verð dregst saman. Þessu til viðbótar er Norðurál skuldbundið til að greiða fyrir raforku í 20 ár, óháð því hvort þeir noti raforkuna eða ekki.

Þetta gerir það að verkum að atvinnuöryggi þeirra sem starfa hérlendis í stóriðjum, t.d. hjá Norðuráli er mun tryggara en hjá starfsmönnum sömu fyrirtækja erlendis. Sem dæmi þá greiddi Norðurál á fjórða milljarð í opinber gjöld á síðasta ári og er það formanni því hulin ráðgáta að einstaka stjórnmálamenn leggi stein í götu þessara fyrirtækja.

Nú er bara að vona að álverðið haldi áfram að hækka því kjarasamningur starfsmanna Norðuráls er laus um áramótin. Það skiptir gríðarlega miklu máli að álverðið haldi áfram að síga upp á við því það mun klárlega auðvelda samningsaðilum að ná saman. Enda eiga stóriðjufyrirtækin að láta starfsmenn sína njóta góðs af því þegar rekstur fyrirtækisins gengur vel.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image