• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
11
May

Skýlaus krafa að launahækkanir 1. júlí standi

Í grein sem Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar – stéttarfélags skrifaði í Morgunblaðið á laugardaginn var fer hann yfir frestun umsaminna launahækkana upp á 13.500 krónur sem koma áttu til framkvæmda 1. mars sl. og andstöðu sex stéttarfélaga á landsbyggðinni við þá frestun.

Einnig kemur fram í grein Aðalsteins að Framsýn – stéttarfélag Þingeyinga hafi falið lögfræðingum félagsins að kanna lögmæti þess að launahækkunum var frestað. Félagið dregur í efa að frestun standist.

Formaður VLFA undrar sig ekki á því að Framsýn - stéttarfélag efist um að frestunin standist, einfaldlega vegna þess að stjórn Verkalýðsfélag Akraness fékk einnig álit síns lögfræðings á því hvort samninganefnd ASÍ hefði haft þá heimild að fresta áður umsömdum launahækkunum sem áttu að taka gildi 1. mars sl.  Lögfræðingur Verkalýðsfélags Akraness telur að samninganefnd ASÍ hafi ekki haft heimild til að fresta umsömdum launahækkunum kjarasamningsins eða semja um lækkun samningsins. Orðrétt segir í lögfræðiáliti sem félagið lét gera 3. febrúar sl.:

Telur undirritaður að það hefði þurft að koma skýrt fram í samningnum ef ætlunin hafi verið að fela samninganefnd ASÍ heimild til að fresta umsömdum taxtahækkunum kjarasamningsins eða semja um þær til lækkunar.  Hafi nefndin því ekki umboð til slíkra ráðstafana jafnvel þótt hún teldi að með því móti væri verið að stuðla að framangreindum markmiðum kjarasamnings aðila.

Hægt er að lesa lögfræðiálitið í heild sinni með því að smella hér.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness gerði grein fyrir þessu lögfræðiáliti á formannafundi aðildarfélaga ASÍ í febrúar og á sama fundi var lögð fram tillaga af sex landsbyggðarfélögum um að ef samið yrði um frestun á launhækkunum þá yrði það lagt í allsherjaratkvæðagreiðslu á meðal þeirra félagsmanna sem taka laun eftir þeim kjarasamningum sem frestunin átti að ná til.  Ekki var hlustað á þessi sex landsbyggðafélög og gekk samninganefnd ASÍ frá frestun 25. febrúar eins og frægt er orðið. 

Á þessu sést að það eru töluverðar líkur á því að þessi gjörningur sem samninganefnd ASÍ gerði við Samtök atvinnulífsins standist ekki neina skoðun. 

Nú liggur fyrir að frestunin á að gilda til 1. júlí nk. og það mun ekki koma til greina af hálfu Verkalýðsfélags Akraness að gengið verði frá einhverju samkomulagi við Samtök atvinnulífsins um viðbótar frestun á þeim launahækkunum sem eiga að taka gildi 1. júlí. en formaður félagsins hefur grun um að slíkt geti gerst og nægir að nefna viðtal við forseta ASÍ í Kastljósþætti frá 24. mars í því samhengi.

Það er alveg á hreinu að íslenskt verkfólk getur ekki tekið á sig þyngri byrðar en það hefur nú þegar gert og það verða fleiri en verkafólk að axla ábyrgð á stöðugleika í íslensku samfélagi.  Rétt er að minna á að eftir að verkafólk gekk frá kjarasamningum 2004 þá komu nánast allir aðrir launþegahópar og sömdu um umtalsvert meira en verkafólk fékk.  Einnig er rétt minna á að gengið var frá afar hófstilltum kjarasamningum fyrir verkafólk 17. febrúar 2008 og átti sá samningur að tryggja hér stöðugleika og aukin kaupmátt til handa verkafólki.  Með öðrum orðum þá hefur verkafólk ætíð lagt sitt af mörkum til að tryggja stöðugleika hér á landi.

Það gengur alls ekki upp að ríki, sveitarfélög, verslunareigendur, tryggingafélög og aðrir þjónustuaðilar varpi sínum vanda beint út verðlagið á meðan verkafólk getur ekkert gert vegna stóraukinnar greiðslubyrði og gríðarlegs tekjusamdráttar.

Þessu til viðbótar getur það alls ekki gengið upp að það sé nánast hagkvæmara að vera á atvinnuleysisbótum en að starfa á þeim lágmarkstöxtum sem nú eru í gildi.  Á þeirri forsendu kemur það ekki til greina að fresta þeim launahækkunum sem eiga að taka gildi 1. júlí nk.  Nú er afar þýðingarmikið að verkafólk vítt og breitt um landið standi þétt saman og berjist með kjafti og klóm fyrir því að áður umsamdar launahækkanir komi til framkvæmda eins og um hefur verið samið.

Aðalmálið nú er að ekki verði endurtekinn sá gjörningur sem ASÍ gekk frá við SA 25. febrúar, slíkan gjörning mun  íslenskt verkafólk ekki sætta sig við. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image