• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
13
May

Þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins lítur skelfilega út fyrir skuldsett heimili

Tugþúsundir Íslendinga, sem skulda húsnæðislán og/eða bílalán í erlendri mynt, urðu fyrir enn einu áfallinu þegar fjármálaráðuneytið birti þjóðhagsspá sína í gær. Samkvæmt henni er ekki gert ráð fyrir að gengi krónunnar styrkist svo nokkru nemi á næstu þremur árum og að gengisvísitalan verði áfram yfir 200 stig. Gengur þetta þvert gegn mati fjölmargra hagfræðinga sem undanfarið hafa talið að “raungengi” krónunnar ætti að vera nær 150 stigum en slíkt hefði getað skipt sköpum fyrir viðkomandi einstaklinga og fyrirtæki. 

Skuldarar myntkörfulána tóku því flestir fegins hendi þegar þeim bauðst að frysta greiðslur sínar í vetur. Á sama tíma voru vonir bundnar við að gengið myndi styrkjast á ný og því yrði mögulegt að hefja afborganir á nýjan leik með svipuðum hætti og áður. Gangi spá fjármálaráðuneytisins eftir er ljóst að engin von er á slíku.

Dæmið lítur jafnvel enn verr út fyrir þá sem tóku erlend lán í japönskum jenum og svissneskum frönkum, en svo virðist sem slík samsetning hafi verið algengust hjá einstaklingum. Gengið gagnvart þessum gjaldmiðlum hefur versnað enn meira en gengisvísitalan segir til um. Þannig hefur gengi krónunnar gagnvart japönsku jeni hrunið um 83% frá því í byrjun maí í fyrra og um 133% frá því í ársbyrjun 2008!

Þessi spá fjármálaráðuneytisins veldur þeim einstaklingum sem eru með gengistryggð lán gríðarlegum vonbrigðum og alveg morgunljóst að þessi spá mun klárlega ýta undir þá staðreynd að fólk mun íhuga sterklega að hætta að greiða af sínum gengistryggðu lánum.

Það er skýlaus krafa á stjórnvöld að þau grípi til tafarlausra aðgerða til hjálpar þessum einstaklingum og fyrirtækjum sem eru með gengistryggð lán sem hafa hækkað um stjarnfræðilegar upphæðir að undanförnu.  Það verður að koma til niðurfærsla og leiðrétting á skuldum heimilanna ella eru miklar líkur á að fólk hætti að greiða af sínum skuldbindingum.  Enda er enginn hvati til að halda slíkri baráttu áfram þegar skuldir eru komnar langt umfram það sem fólk á í sínum eignum.

Það er rétt að ítreka það að heimilin í þessu landi bera enga ábyrgð á þeim hamförum sem nú ríður yfir samfélagið og á þeirri forsendu verða stjórnvöld að koma með leiðréttingu á skuldum heimilanna tafarlaust ef ekki á illa að fara.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image