• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Sýnum samstöðu með Hagsmunasamtökum heimilanna Forsvarsmenn Hagsmunasamtaka heimilanna í heimsókn á skrifstofu félagsins
22
May

Sýnum samstöðu með Hagsmunasamtökum heimilanna

Hagmunasamtök heimilanna höfðu samband við formann Verkalýðsfélags Akraness og óskuðu eftir því að hann yrði einn af aðalræðumönnum á opnum samstöðufundi á Austurvelli sem samtökin standa fyrir á morgun kl. 15:00.  Því miður getur formaður félagsins ekki orðið við þessari ósk af óviðráðanlegum orsökum.

Verkalýðsfélag Akraness hefur átt gott og náið samstarf með forsvarsmönnum Hagsmunasamtaka heimilanna og hefur formaður t.a.m. fundað með forsvarsmönnum vegna þess alvarlega ástands sem nú blasir við skuldsettum heimilum þessa lands. Það er mat félagsins að samtökin séu að vinna afar óeigingjarnt og mikilvægt starf fyrir heimili landsins og ber verkalýðshreyfingunni að sýna þeim stuðning í verki.

Verkalýðsfélag Akraness er algerlega sammála málflutningi forsvarsmanna samtakanna og hefur aðalfundur félagsins t.d. samþykkt ályktun þar sem skorað er á stjórnvöld að koma með niðurfellingu og leiðréttingu á verðtryggðum og gengistryggðum lánum.

Verkalýðsfélag Akraness skorar á alla að sýna samstöðu í verki og mæta á fundinn á morgun, en eftirfarandi auglýsing hefur borist frá Hagsmunasamtökum heimilanna:

SAMSTÖÐUFUNDUR HAGSMUNASAMTAKA HEIMILANNA

 

Í ljósi þess neyðarástands sem ríkir á Íslandi boða Hagsmunasamtök heimilanna til samstöðufundar á Austurvelli laugardaginn 23.5.2009 kl. 15.00.

Við teljum að þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa ákveðið að grípa til séu því miður hvergi nærri fullnægjandi. Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins munu 28.500 fjölskyldur á Íslandi (um 30%), skulda meira en þær eiga í árslok 2009. Árið 2007 var um að ræða 7.500 fjölskyldur. Þetta er 380% aukning.

Umrædd neikvæð eiginfjárstaða er fyrst og fremst til komin vegna höfuðstólshækkana gengis- og verðtryggðra lána. Lánin hafa rokið upp úr öllu valdi í kjölfar verðbólguskotsins sem orsakaðist af gengishruni krónunnar. Við höfnum því alfarið að almenningur verði látinn sæta ábyrgð á efnahagshruninu með þessum hætti.

Hagsmunasamtök heimilanna vilja:

* Að gengis- og verðtryggð lán verði leiðrétt með almennum aðgerðum

* Að áhætta milli lánveitenda og lántakenda verði jöfnuð

* Afnema verðtryggingu

* Að veð takmarkist við þá eign sem sett er að veði

* Samfélagslega ábyrgð lánveitenda

Ræðumenn:

Bjarki Steingrímsson, varaformaður V.R.

Guðrún Dadda Ásmundardóttir, í stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna

Ólafur Garðarsson, í stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna

Sigrún Elsa Smáradóttir, borgarstjórnarfulltrúi

Hljómsveitin EGÓ kemur fram

TÖKUM STÖÐU MEÐ HEIMILUNUM

www.heimilin.is

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image