• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
22
May

Fjöldi Akurnesinga mun starfa á komandi hvalavertíð

Rétt í þessu var formaður að ljúka fundi með Kristjáni Loftssyni, forstjóra Hvals. Tilefni fundarins var komandi hvalavertíð sem mun hefjast fljótlega í júní og greindi Kristján formann frá því að allt að 150 manns myndu starfa á komandi hvalavertíð, fyrir utan afleidd störf. Þetta verða að teljast gríðarlega jákvæð tíðindi vegna þess ástands sem nú ríkir á íslenskum vinnumarkaði.

Vinnslan mun að stórum hluta fara fram í Hvalstöðinni í Hvalfirði, en það liggur fyrir að vinna við frystingu á afurðum mun einnig fara fram hér á Akranesi og er áætlað að um 30 til 40 manns muni starfa við þann hluta starfseminnar.

Formanni er kunnugt um það að töluverður fjöldi Akurnesinga mun starfa á komandi hvalavertíð, bæði uppi í hvalstöð sem og við frystingu afurða hér á Akranesi. Það er ljóst að þetta mun verða mikil innspýting í samfélagið hér á Akranesi, enda eru í dag yfir 300 manns án atvinnu á Akranesi og yfir 500 manns á Vesturlandinu öllu.

Það er því óhætt að segja að þetta sé ljósið í myrkrinu hvað varðar tíðindi af vinnumarkaðnum hér á landi, en Verkalýðsfélag Akraness hefur barist hart fyrir því að hvalveiðar yrði leyfðar á nýjan leik og nægir að nefna gríðarlega fjölmennan fund sem félagið stóð fyrir með Akraneskaupstað í febrúar sl.

Það er skylda okkar að nýta okkar auðlindir á sjálfbæran hátt t.d. stórhveli að fenginni ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og það er ljóst að þær veiðar sem nú fara að hefjast munu skila fjölda starfa og auknum útflutningstekjum þjóðinni til heilla.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image