• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
May

87,4% af framlagi sjóðsfélaga fer í samtryggingu og rekstur lífeyrissjóðs Festu

Ársfundur lífeyrissjóðs Festu var haldinn 19 maí sl. Fram kom á fundinum að nafnávöxtun á árinu 2008 var neikvæð um 5,56% sem jafngildir því að hrein raunávöxtun hafi verið neikvæð um 18,84%.

Eignir sjóðsins í árslok 2008 voru 54,6 milljarðar og lækkaði um rúmlega 700 milljónir eða um 1,3%. Gjaldfærð niðurfærsla á árinu var hins vegar tæpir 5,8 milljarðar sem skýrist af falli bankanna. Þessu til viðbótar var einn milljarður til viðbótar afskrifaður í mars á þessu ári.

Tryggingafræðileg afkoma sjóðsins við árslok 2008 var neikvæð um 8%. Á þeirri forsendu lagði tryggingafræðingur sjóðsins til við stjórn sjóðsins að lífeyrisgreiðslur til sjóðsfélaga yrðu skertar um 2,5% og að réttindataflan yrði einnig skert um 2,5%. Ársfundur samþykkti þessa tillögu, enda lítið annað hægt að gera í stöðunni.

Formaður félagsins tók til máls á fundinum og ítrekaði þá skoðun stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að það væri í hæsta máta óeðlilegt að atvinnurekendur ættu aðkomu að stjórnum sjóðanna og kom fram í máli hans að það væri mat félagsins að atvinnurekendur ættu ekkert að gera með að véla með lífeyrir launafólks. Einnig væri það afar óeðlilegt að fulltrúar atvinnurekenda tækju ákvarðanir um fjárfestingar sjóðanna því klárlega geta hagsmunatengsl fulltrúa atvinnurekenda haft áhrif á fjárfestingastefnu sjóðanna.

Það liggur fyrir að lífeyrissjóðirnir hafa verið að fjárfesta í hlutabréfum og skuldabréfum fyrirtækja, og þarf enginn að halda öðru fram en að þar geti myndast hagsmuna- og krosseignatengsl hjá fulltrúum atvinnurekenda í stjórnum lífeyrissjóðanna.

Formaður sagði að það væri skylda verkalýðshreyfingarinnar að vinna af fullum krafti að því að koma fulltrúum atvinnurekenda sem fyrst út úr stjórnum lífeyrissjóðanna. Einnig kom fram í máli hans að það væri sorglegt að sjá hvernig fjárfestingastefna lífeyrissjóðanna léki nú sjóðsfélaga grátt þegar blasir við að lífeyrissjóðirnir eru að tapa tugum milljarða á hruni bankanna.

Formaður kom einnig inn á það á fundinum að það væri ótrúlegt að af hverju 10.000 króna framlagi sjóðsfélaga væri ávinnsla sjóðsfélagans einungis 1.261 króna sem þýðir að ávinnslan er einungis 12,6% af framlaginu. Með öðrum orðum þá fara 87,4% af framlagi hvers sjóðsfélaga í samtrygginguna og rekstur lífeyrissjóðsins. Á þeirri forsendu veltir formaður því fyrir sér hvort þetta geti talist besta kerfið fyrir launþega þessa lands.

Til að skýra málið enn frekar þá er hægt að velta fyrir sér launþega með laun upp á 350.000 kr. á mánuði. Af launum hans greiðist til lífeyrissjóðsins 12% sem gerir 42.000 á mánuði. Hins vegar ávinnur hann sér einungis 5.292 kr. Mismunurinn, 36.708 krónur, rennur í samtrygginguna og rekstur sjóðsins.

Á ársgrundvelli er því greitt af þessum launþega 504.000 krónur til sjóðsins. Sjálfur ávinnur hann sér 63.504 kr. Mismunurinn rennur í samtrygginguna eða 440.496 krónur.

Formaður telur að þetta geti vart verið eðlilegt og það hlýtur að vera hægt að ná betri árangri fyrir sjóðsfélaga t.d. með því að lífeyrissjóðirnir bjóði út samtryggingarþáttinn til tryggingafélaganna því það getur á engan hátt verið eðlilegt að 88% af framlagi launþegans renni í þennan þátt.

Það þarf að fá óháða aðila til að kafa ofan í þetta kerfi, þar sem hagsmunaaðilar komi hvergi nærri og er þar m.a. átt við einstaka fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda. Því það er alveg ljóst af hverju atvinnurekendur leggja svona mikla áherslu á að hafa svona mikla aðkomu að stjórnum sjóðanna því það nægir að nefna hvert sjóðirnir eru að beina sínum fjármunum.

Hjá öðrum lífeyrissjóðum er þetta mjög sambærilegt og það getur ekki verið eðlilegt að á milli 80% og 90% af framlagi hvers sjóðsfélaga renni í samtryggingar og rekstur lífeyrissjóðanna. Lífeyrissjóðirnir eru svo sannarlega ekki hafnir yfir gagnrýni og á þessu þarf að taka af fullri festu og þetta getur ekki verið besta kerfið sem völ er á, ef þessar staðreyndir eru skoðaðar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image