• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
08
Apr

Réttindi félagsmanna aukin í ljósi góðrar afkomu

Stjórnir allra sjóða Verkalýðsfélags Akraness funduðu í gær þar sem farið var yfir ársreikninga félagsins með endurskoðendum.

Það er skemmst frá því að segja að afkoma félagsins var mjög góð og skiluðu allir sjóðirnir töluverðum rekstrarafgangi þrátt fyrir þær hremmingar sem geysað hafa í kjölfar hruns bankanna. Og vill stjórn félagsins upplýsa félagsmenn um að Verkalýðsfélag Akraness tapaði ekki einni einustu krónu vegna þeirra hamfara sem riðu yfir bankakerfið enda var félagið hvorki aðili að peningamarkaðssjóðum bankanna né þátttakandi í hlutabréfakaupum. Það er stefna stjórnar félagsins að ávaxta fjármuni félagsins ávalt á sem besta og tryggasta hátt á venjubundum innlánsreikningum.

Þessi góða afkoma sjóðanna gerist einnig þrátt fyrir að búið sé að auka styrki úr sjúkrasjóði umtalsvert á liðnum árum og tók stjórn sjóðsins t.a.m. þá ákvörðun í gær að taka inn einn nýjan styrk til viðbótar og verður hann kynntur á aðalfundi félagsins þann 21. apríl nk.

Stjórn orlofssjóðs ákvað einnig að bjóða félagsmönnum upp á nýjung nú í sumar. Hægt verður að fá endurgreiðslu á kostnaði vegna gistingar á tjaldsvæðum og nemur sú endurgreiðsla 5.000 kr. gegn framvísun fullgildra kvittana.

Allt er þetta gert í ljósi þess að afkoma félagsins er mjög góð um þessar mundir þó vissulega séu blikur á lofti hvað varðar iðgjaldatekjur á þessu ári vegna samdráttar á vinnumarkaði.

Samtals nutu 1240 manns fjárhagslegs ávinnings af félagsaðild sinni með beinum hætti á liðnu ári sem er um 44% af öllum félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness. Á síðasta ári voru félagsmenn alls 2.839.

Það er stefna stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að láta félagsmenn ávalt njóta góðs af góðri afkomu og auka réttindi okkar félagsmanna í takt við afkomu hvers árs fyrir sig.

Það er afar ánægjulegt að sjá þann árangur sem núverandi stjórn hefur náð frá því hún tók við 19. nóvember 2003 en á þessum tíma hefur stjórninni tekist að byggja upp sjóði félagsins en jafnframt auka réttindi félagsmanna gríðarlega. Stjórnin er hins vegar meðvituð um það að ávalt má gera betur og það mun hún gera.

Ársreikningar félagsins liggja nú frammi á skrifstofu félagsins.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image