• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Góður framboðsfundur vegna alþingiskosningana Góður framboðsfundur vegna alþingiskosningana
20
Apr

Góður framboðsfundur vegna alþingiskosningana

Rúmlega eitthundrað manns mættu á opinn fund með fulltrúum allra þeirra stjórnmálaflokka sem taka þátt í komandi alþingiskosningum.  Það var Verkalýðsfélag Akraness sem stóð fyrir fundinum.

Fundurinn þótti takast mjög vel en hann hófst kl 15:00 og lauk ekki fyrir en kl 18:00.  Fyrirkomulagið á fundinum var með þeim hætti að formaður Verkalýðsfélags Akraness hélt ræðu og opnaði fundinn.  Í kjölfarið fluttu frambjóðendur með framsögu.  Að framsögum loknum var opnað fyrir spurningar úr sal. Fundarmenn nýttu sér það óspart og fjölmargar spurningar um hin ýmsu mál voru bornar fram.

Formaður sagði í sinni ræðu að það væri alveg morgun ljóst að ekki væri við íslenskt verkafólk að sakast hvernig komið væri fyrir íslensku atvinnu- og efnahagslífi eftir hrun fjármálakerfisins, heldur mætti rekja ábyrgðina til aðila sem stjórnuðust af græðgisvæðingunni einni saman og þeirra aðila sem áttu að sinna eftirliti með fjármálakerfinu. Hægt er að lesa ræðu formanns í heild sinni hér.

Allir frambjóðendur þökkuðu Verkalýðsfélagi Akraness kærlega fyrir það frumkvæði sem félagið hefði tekið með því að boða til þessa fundar og gefa kjósendum á Akranesi færi á að hlusta og spyrja frambjóðendur um helstu stefnumál flokkanna.

Guðbjartur Hannesson forseti Alþingis vildi þakka Verkalýðsfélagi Akraness sérstaklega fyrir það frumkvæði sem félagið hefði haft í mörgum málum, ekki bara hvað verðar þennan fund heldur mörg önnur hagsmunamál félagsmanna og reyndar bæjarbúa allra.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness vonar að þessi fundur hafi hjálpað þeim sem á hann mættu til að ákveða sig hvað þeir hyggjast kjósa í komandi kosningum og hvetur félagið kjósendur eindregið til að nýta kosningarétt sinn.  Það fer ekki á milli mála að þessar kosningar eru einar þær mikilvægustu sem haldnar hafa verið á síðustu áratugum og á þeirri forsendu skiptir máli að kjósendur nýti sinn kosningarrétt.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image