• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Afkoma félagsins mjög góð Stjórnarmennirnir Elí, Skúlína og Linda brostu út að eyrum á fundinum í gær
22
Apr

Afkoma félagsins mjög góð

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness var haldinn í gærkvöldi og var góð mæting á fundinn. Það er skemmst frá því að segja að afkoma félagsins var mjög góð á síðasta ári en rekstrarafgangur félagsins nam 121 milljón. 

Fram kom í skýrslu stjórnar félagsins að félagið hafi ekki tapað einni einustu krónu vegna þeirra hamfara sem riðu yfir fjármálakerfið í október. Allir fjármunir félagsins hafa ávalt verið ávaxtaðir með besta og tryggasta hætti sem mögulegt er hverju sinni.

Formaður fór yfir í skýrslu stjórnar hversu gríðarlegum breytingum Verkalýðsfélag Akraness hefur tekið á undanförnum árum. Ekki aðeins fjárhagslega heldur einnig félagslega. Félagsmönnum hefur t.a.m. fjölgað mjög ört undanfarin ár og eru núna tæplega 3.000 félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness en voru rúmlega 1.600 þegar ný stjórn tók við árið 2003.

Endurskoðendur félagsins fóru yfir ársreikninga félagsins. Fjárhagur félagsins tekið algerum stakkaskiptum frá því ný stjórn tók við en sem dæmi þá var félagssjóður félagsins rekinn á yfirdrætti þegar ný stjórn tók við 19. nóvember 2003 og halli félagssjóðs nam tæpum 2 milljónum. En í dag voru allir sjóðir félagsins reknir með rekstrarafgangi og eins og áður kom fram var heildarrekstrarafgangur 121 milljón króna.

Vegna góðrar afkomu félagsins undanfarin ár hafa stjórnir sjóða félagsins verið að auka réttindi félagsmanna jafnt og þétt og sem dæmi þá hafa verið teknir inn níu nýir bótaflokkar hjá sjúkrasjóði félagsins og er þetta einungis gert vegna góðrar afkomu félagsins.

Tvær nýjungar í þjónustu félagsins voru kynntar á fundinum í gær. Stjórn orlofssjóðs hefur ákveðið að endurgreiða félagsmönnum 5.000 kr. á ári vegna gistingar á tjaldstæðum eða kaupa á svokölluðum útilegukortum. Framvísa þarf kvittun á skrifstofu. 

Einnig hefur stjórn sjúkrasjóðs ákveðið að endurgreiða vegna kaupa á gleraugum barna félagsmanna 50% af reikningi að hámarki kr. 10.000 á hverju 12 mánaða tímabili.

Að sjálfsögðu var vandi heimilanna til umræðu á aðalfundinum og lagði formaður félagsins fram ályktun sem lýtur að greiðsluvanda heimilanna og var hún samþykkt með meginþorra atkvæða. Hægt er að lesa ályktunina í heild sinni hér.

Það var afar ánægjulegt að heyra hversu ánægðir fundarmenn voru með starfsemi félagsins og gerir slíkt ekkert annað en að efla stjórnir og starfsmenn félagsins enn frekar til dáða.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image