• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
08
Jan

Iðnaðarráðherra í heimsókn á Grundartanga

Össur Skarphéðinsson, iðnaðar- og byggðamálaráðherra heimsótti í gær iðnfyrirtæki á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit. Fyrst var komið við hjá Skaganum hf. á Akranesi en eftir fund með stjórnendum fyrirtækisins var haldið á Grundartanga þar sem Járnblendiverksmiðja Elkem á Íslandi var sótt heim. Með ráðherra í för var Guðbjartur Hannesson, samflokksmaður hans í NV kjördæmi.

Þeir Guðbjartur og Össur voru sammála um að ferðin hafi verið afar gagnleg og fróðlegt að kynnast áætlunum beggja fyrirtækjanna. “Hjá Skaganum eru vangaveltur um að fyrirtækið taki að sér fleiri verkefni. Megináhersla þeirra undanfarin ár hefur verið á kælitækni í matvælaiðnaði.

Þá hefur Skaginn keypt fyrirtæki í plötufrystingu á Ítalíu og hefur uppi áform um flutning þess hingað til lands. Forsvarsmenn Skagans kynntu fyrir okkur áhugaverða tækni sem fyrirtækið býr yfir og vaxtarmöguleika þess á Akranesi,” sagði Guðbjartur.

Á Grundartanga skoðuðu þingmennirnir starfsemi Elkem á Íslandi og framtíðaráhorfur fyrirtækisins. “Elkem hefur lagt áherslu á verksmiðjuna á Grundartanga og þar hefur orðið mikil uppbygging með aukinni framleiðslu. Við kynntum okkur hugmyndir um sólarkísilverksmiðju en í umsókn um endurnýjað starfsleyfi fyrirtækisins á Grundartanga er opnað fyrir þann möguleika að slík verksmiðja verði byggð upp á Grundartanga.

Baráttan í því máli stendur hinsvegar milli nokkurra landa, þ.á.m. Kanada, Indónesía, Malsasía auk Íslands. Í umræðum kom fram að ráðherra leist mjög vel á áætlanir beggja fyrirtækjanna sem við heimsóttum í ferðinni og ljóst að þar búa mikil sóknarfæri t.d. í uppbyggingu mannfrekrar framleiðslu. Hjá Elkem er verið að tala um allt að 350 manna nýjan vinnustað ef þetta gengi allt eftir. Sjálfsagt verður mest samkeppni um sólarkísilverksmðjuna frá Kanada er þar í landi er mikil fyrirgreiðsla til nýsköpunar í fyrirtækjum í dreifbýli. Því verður þetta hörð samkeppni við Kanadamenn um þetta nýja fyrirtæki og afar fróðlegt að fylgjast með framvindu málsins,” sagði Guðbjartur að lokum.

 Frétt á Skessuhorni

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image