• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
03
Oct

Auka þarf aflaheimildir í þorski tafarlaust

Það er óhætt að segja að fólk hafi verulegar áhyggjur af því efnahagsástandi sem nú ríkir í íslensku samfélagi og eru þær áhyggjur svo sannarlega ekki að ástæðulausu. Þessar áhyggjur minnkuðu síður en svo þegar Geir H. Haarde forsætisráðherra kynnti stefnuræðu sína í gærkvöldi en í henni kom ekkert fram til að slá á ótta fólks yfir því ástandi sem nú ríkir. Þegar þetta er skrifað stendur gengisvísitalan í 208 og hefur krónan fallið gríðarlega að undanförnu.

Rétt er að minna á framlag verkafólks til að viðhalda stöðugleika í þessu landi en kjarasamningar sem gerðir voru bæði 2004 og 17. febrúar sl. byggðust á hóflegum hækkunum með það að markmiði að skapa hér stöðugleika og auka kaupmátt verkafólks. Þegar gengið var frá kjarasamningum þann 17. febrúar var verðbólgan í 5,7% en nú einungis átta mánuðum síðan er verðbólgan 14 % og bullandi kjaraskerðing dynur á okkar fólki og miklar hækkanir á greiðslubyrði skuldsettra fjölskyldna. Á forsendu þess að hafa gengið frá hóflegum og skynsamlegum samningum er grátlegt fyrir verkafólk að horfa upp á þá stöðu sem nú blasir við í íslensku samfélagi.

Bankarnir eiga í gríðarlegum erfiðleikum sem ekki sér fyrir endann á og ljóst er að sú útrás sem bankarnir hafa ástundað á undanförnum árum er að koma illilega í bakið á íslensku þjóðinni núna. Þeir aðilar sem hafa stjórnað þessum fjármálafyrirtækjum hafa sópað til sín gríðarlegum fjármunum í formi kaupréttarsamninga, bónusa og annarra launagreiðslna og ávalt hefur verkalýðshreyfingin gagnrýnt þetta. Stjórnendur fjármálastofnana hafa svarað: “ykkur koma launakjör æðstu stjórnenda ekki við” . Málið er einfalt, að þegar bankarnir eru farnir að leita til Seðlabanka Íslands um aðstoð þá kemur skattgreiðendum þessa lands þetta svo sannarlega við. Það er vonandi að sá glannaskapur sem verið hefur í launakjörum æðstu stjórnenda fjármálastofnana heyri nú sögunni til.

En hvað er til ráða? Ríkisstjórn Íslands á tafarlaust að óska eftir aðildarviðræðum við ESB því það liggur fyrir að sú peningastefna sem hér hefur verið rekin og sá gjaldmiðill sem hér er hefur gengið sér til húðar. Einnig á að auka tafarlaust aflaheimildir í þorski um 50 – 100 þúsund tonn til að skapa hér auknar útflutningstekjur enda er bullandi ágreiningur um þá ráðgjöf sem Hafrannsóknarstofnun hefur gefið á undanförnum árum. Einnig á ríkisstjórn Íslands að flýta þeim aðgerðum sem hún tilkynnti í yfirlýsingu samhliða kjarasamningum um hækkun persónuafsláttar á þremur árum og láta þá hækkun þegar taka gildi til að létta á greiðslubyrði fólks. Að auki á ríkisvaldið að lækka álögur á eldsneyti vegna þess að virðisaukaskattstekjur ríkissjóðs hafa hækkað umtalsvert vegna hækkunar á eldsneytisverði á heimsmarkaði. Seðlabankinn á að lækka stýrivexti eins fljótt og kostur er.

Oft var þörf, en nú er nauðsyn, ríkisstjórnin getur ekki beðið lengur með aðgerðir í efnahagsmálum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image