• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Óhjákvæmilegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar Starfsmaður Norðuráls að störfum
07
Oct

Óhjákvæmilegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar

Það er óhætt að segja að stormur ríki í íslensku efnahagslífi þessa dagana og nægir að nefna að í gær samþykkti Alþingi neyðarlög um fjármálamarkaði. Veita þessi lög Fjármálaeftirlitinu afar víðtækar heimildir til að grípa inn í rekstur fjármálafyrirtækja.

Það er mat formanns félagsins að þessar aðgerðir ríkisstjórnar hafi verið hárréttar miðað við þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í íslensku efnahagslífi og í raun bjargað íslensku þjóðinni frá þjóðargjaldþroti. Með þessum aðgerðum er margt sem bendir til þess að hagur íslenskra heimila, fyrirtækja og þjóðarinnar í heild sinni hafi verið tekinn fram fyrir hagsmuni hluthafa fjármálafyrirtækja.

Það liggur fyrir að það eru gríðarlegir erfiðleikar framundan en miðað við þær traustu stoðir sem við höfum í okkar samfélagi eins og t.d. sjávarútveginn og stóriðjurnar þá munum við vinna okkur út úr þessum hremmingum. En til þess að það takist þá verða allir að taka höndum saman. Það er t.a.m. mikill uppgangur í stóriðjunum, verð á áli og kísiljárni hefur hækkað gríðarlega á undanförnum misserum og við á okkar félagssvæði getum hrósað happi yfir þessum styrku stoðum sem við höfum og á þeirri forsendu telur formaður að allflestir félagsmenn geti horft nokkuð björtum augum til framtíðar.

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir íslensku ríkisstjórnina að koma skuldsettum íslenskum heimilum til hjálpar og nægir þar að nefna að lækkun stýrivaxta verður að koma til tafarlaust. Ríkisstjórn Íslands á tafarlaust að óska eftir aðildarviðræðum við ESB því það liggur fyrir að sú peningastefna sem hér hefur verið rekin og sá gjaldmiðill sem hér er hefur gengið sér til húðar. Einnig á að auka tafarlaust aflaheimildir í þorski um 50 – 100 þúsund tonn til að skapa hér auknar útflutningstekjur enda er bullandi ágreiningur um þá ráðgjöf sem Hafrannsóknarstofnun hefur gefið á undanförnum árum. Einnig á ríkisstjórn Íslands að flýta þeim aðgerðum sem hún tilkynnti í yfirlýsingu samhliða kjarasamningum um hækkun persónuafsláttar á þremur árum og láta þá hækkun þegar taka gildi til að létta á greiðslubyrði fólks. Að auki á ríkisvaldið að lækka álögur á eldsneyti vegna þess að virðisaukaskattstekjur ríkissjóðs hafa hækkað umtalsvert vegna hækkunar á eldsneytisverði á heimsmarkaði.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image