• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
09
Oct

Mikilvægi stóriðjunnar aldrei verið eins áberandi

Nú hefur það sýnt sig svo ekki verður um villst hversu gríðarlega mikilvægt það er að vera með sterkar stoðir í okkar atvinnulífi eins og stóriðjan á Grundartanga er. Varlega áætlað starfa hjá þessum sterku fyrirtækjum í dag á milli 700 og 800 manns og á atvinnuöryggi þessara starfsmanna að vera eins vel tryggt og kostur er í þeim ólgusjó sem atvinnulífið er nú að ganga í gegnum. Það sýnir að mikilvægi stóriðjunnar hefur aldrei verið eins mikið og nú þegar að atvinnulífið á verulega undir högg að sækja.

Það er mat formanns að hraða eigi allri uppbyggingu stóriðjuframkvæmda eins fljótt og kostur er. Mikilvægt er að ríkisvaldið greiði götu þeirra aðila sem vilja hefja hér stóriðjuframkvæmdir.

Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni er einnig mjög mikilvægt að auka hér aflaheimildir í þorski sem tryggja myndi auknar gjaldeyristekjur sem og aukna atvinnu fyrir sjómenn og fiskvinnslufólk. Formaður telur að þó svo aflaheimildir í þorski verði auknar tímabundið í eitt ár um einhverja tugi þúsundi tonna þá sé það áhætta sem fiskistofnarnir eiga klárlega að geta þolað en ekki er víst að þjóðarbúið þoli að verða af þeim tekjum.

Ráðamenn þjóðarinnar verða nú að taka djarfar ákvarðanir í þeim hremmingum sem þjóðin stendur frammi fyrir því allt of miklir hagsmunir eru í húfi og fórnum nú ekki minni hagsmunum fyrir meiri.

Það er alveg ljóst að framundan eru gríðarlega erfiðir tímar fyrir atvinnulífið og heimilin í landinu og ljóst að enginn mun sleppa við skakkaföll vegna þess efnahagsástands sem nú ríkir í heiminum öllum.

Verkalýðsfélag Akraness vill minna félagsmenn sína á að félagið býður fram alla þá aðstoð sem það getur mögulega veitt fyrir þá sem verða fyrir atvinnumissi á næstu misserum og skorar félagið á félagsmenn að nýta sér þá þjónustu sem félagið býður upp á. Samt sem áður er það þannig að atvinnuástandið á okkar félagssvæði er töluvert betur búið til að taka við þessum hremmingum sem nú ganga yfir sökum áðurnefndra staðreynda sem lúta að þeirri miklu og jákvæðu uppbyggingu sem verið hefur á Grundartangasvæðinu.

Það er gríðarlegar mikilvægt að allir standi saman í því að koma okkur út úr því ástandi sem nú ríkir í íslensku samfélagi og er formaður ekki í nokkrum vafa um að okkur muni takast það, sérstaklega í ljósi þeirrar sterku stöðu sem við Íslendingar höfum bæði hvað varðar sjávarútveginn sem og hina miklu uppbyggingu í stóriðjunni svo við tölum nú ekki um þær ónýttu orkulindir sem þessi þjóð býr yfir.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image