• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
13
Oct

Ábyrgð upp á 600 milljarða!

Það er óhætt að segja að nú kraumi gríðarleg reiði í almenningi vegna þess efnahagsástands sem nú ríkir í íslensku samfélagi. Reiðin beinist að því hvernig í ósköpunum það megi gerast að bankakerfið hafi veðsett íslensku þjóðina fyrir 600 milljarða erlendis eins og kemur fram í þessari frétt. Samkvæmt upplýsingum frá viðskiptaráðherra munu eignir Landsbankans og Icesave sem betur fer ganga að einhverju leyti upp í þessa 600 milljarða.

Almenningur spyr sig, hvernig getur þetta hafa gerst og hvar var fjármálaeftirlitið og ríkisvaldið þegar bankarnir þöndust út með þessum hætti og settu íslenska þjóð í ábyrgð fyrir 600 milljörðum? Almenningur virðist ekki hafa haft hugmynd um að þjóðin þyrfti að bera ábyrgð á þessari útrás bankanna eins og nú er orðin raunin.

Þessu til viðbótar ríkir gríðarlega óvissa hjá ótal einstaklingum sem hafa lagt í reglulegan sparnað í formi peningasjóða bankanna, en eins og fram hefur komið í fréttum þá er alls óvíst hversu mikið einstaklingar munu fá til baka af þeim sparnaði. Formanni er kunnugt um verkafólk sem hefur lagt reglulega fyrir í þessa peningasjóði af sínum launum og nú standa þessir einstaklingar frammi fyrir því að bíða milli vonar og ótta eftir því hversu mikil niðurfærsla verður á þessum sjóðum.

Það liggur fyrir að íslenskt verkafólk mun finna fyrir þungu höggi vegna þess ástands sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi og er fólk óttaslegið um starfsöryggi sitt. Það er grátlegt fyrir verkafólk að horfa upp á það ástand sem nú ríkir, sérstaklega í ljósi þess að verkafólk hefur svo sannarlega lagt sitt af mörkum til að viðhalda hér stöðugleika og nægir að nefna gerð síðustu kjarasamninga sem voru skynsamir og hóflegir. Eitt er víst að það er ekki íslenskt verkafólk sem ber ábyrgð á þeirri skelfilegu stöðu sem nú blasir við íslenskri þjóð.

Það er alveg ljóst að almenningur mun ekki sætta sig við það að þeir sem eiga að bera ábyrgð á því hvernig komið er fyrir íslensku þjóðinni nú sæti ekki ábyrgð. Þetta mál þarf að rannsaka ofan í kjölinn því allt bendir til þess að fjölmargir aðilar hafi brugðist í þessu máli og nægir að nefna stjórnendur bankanna, fjármálaeftirlitið, Seðlabankann og þá sem fara með stjórn ríkisins á hverjum tíma.

Hins vegar er aðalmálið núna að verja heimilin og fyrirtækin en þegar um hægist þá er ljóst að víðtæk rannsókn verður að fara fram á því hvað fór úrskeiðis í íslensku efnahagslífi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image