• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Endurreisn efnahagslífsins Verkafólk er uggandi um starfsöryggi sitt
16
Oct

Endurreisn efnahagslífsins

Á fundi formanna aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins, sem haldinn var í dag sagði Gylfi Arnbjörnsson framkvæmdastjóri ASÍ.

,,Mikilvægasta verkefnið til skemmri og lengri tíma litið er að tryggja stöðugleika og trúverðugleika hagkerfisins. Það verður ekki gert með núverandi peningamálastefnu og íslensku krónunni,“

Farið var yfir stöðu efnahagsmála eins og hún blasir við og rætt hvernig styrkja megi og efla aðildarfélögin við að upplýsa og aðstoða félagsmenn þeirra sem lenda efnahagsþrengingum og atvinnumissi.

 

Á fundinum var endurreisn efnahagslífsins mjög til umræðu, en hún verður að byggja á félagslegum viðhorfum um jöfnuð, réttlæti og samfélagslega ábyrgð í stað þeirrar einstaklings- og sérhyggju misskiptingar og græðgi sem tröllriðið hefur samfélaginu undanfarin áratug. 

Gylfi Arnbjörnsson ræddi mikilvægi þess að við sameinuðumst um skýra aðgerðaáætlun til næstu ára m.a. um aðstoð frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, bæði lán og ráðgjöf og skapa þannig trúverðugleika. Vinna þarf að trúverðugri áætlun um stöðugleika í gengis- og peningamálum þar sem aðildarumsókn að ESB og þar með aðild að evrusamstarfinu yrði lokaáfangi.

 Sú lausn myndi, að mati færustu sérfræðinga, leiða til  hraðari lækkunar vaxta en aðrar lausnir. Það sem er brýnast núna er að fá stöðugt og sterkara gengi til að lækka verðbólgu. Það verður að lækka vexti þegar í stað um allt að helming.

 Aðkoma lífeyrissjóðanna að endurfjármögnun atvinnulífsins, gæti reynst afar þýðingarmikil við endurreisnarstarf í efnahagslífinu, en brýnustu verkefnin núna er að koma til móts við fyrirsjáanlegan vanda heimilanna, þ.e. lækka verðbólgu, taka á greiðslubyrði húsnæðislána, treysta atvinnu og bæta hag unga fólksins.

Fundurinn sendi ekki frá sér sérstaka ályktun, en gerir ráð fyrir að ársfundur ASÍ, sem haldinn verður í lok næstu viku, taki afstöðu til þeirra atriða sem rædd voru.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image