• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
18
Oct

Frábært framtak forsvarsmanna Norðuráls

Norðurál á GrundartangaNorðurál á GrundartangaEigendur Norðuráls hafa ákveðið að greiða starfsmönnum fyrirtækisins aukalega sem samsvarar einum mánaðarlaunum. Sem dæmi um þetta glæsilega framtak þá fær starfsmaður sem starfað hefur í 7 ár hjá fyrirtækinu 308.994 kr. Þeir sem eru í hlutastarfi fá greitt í samræmi við það. Einnig ákváðu eigendur fyrirtækisins að greiða fólki sem starfaði við sumarafleysingar í sumar eingreiðslu sem nemur 50.000 kr.

Í dag starfa hjá Norðuráli vel á fimmta hundrað manns og um 80% af þeim starfsmönnum tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness.

Ástæða þess að eigendur Norðuráls ákváðu að umbuna starfsmönnum með þessum hætti er sú að í sameiningu hafa menn náð miklum árangri á Grundartanga og reka nú nútímalegt og samkeppnisfært 270.000 tonna álver. Einnig var á árinu haldið upp á 10 ára starfsafmæli álversins.

Í bréfi sem starfsmönnum barst kemur fram að árið 2008 hafi verið gott fyrir fyrirtækið, góður endir á frábærum áratug og einnig segir í bréfinu að ekkert fyrirtæki getur vaxið og dafnað eins og Norðurál hefur gert nema með traustu starfsfólki sem hefur vilja og getu til að lyfta byrðum saman og vinna sem ein heild að sameiginlegum markmiðum. Einnig er sagt í bréfinu að elja og áhugi starfsfólks Norðuráls hefur verið einstök og eftir henni tekið. Fyrir það vilji fyrirtækið þakka og telja ástæðu til að fanga þeim áföngum sem náðst hafa á árinu.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness fagnar þessu framlagi forsvarsmanna Norðuráls innilega enda algjörlega ljóst að þetta framlag mun koma sér vel fyrir starfsmenn vegna stighækkunar á greiðslubyrði heimilanna. Þetta sýnir svo ekki verður um villst hversu mikilvæg stóriðjan er fyrir okkur Íslendinga. Það að hafa sterkar stoðir í okkar atvinnulífi eins og Norðurál og Elkem Ísland skiptir sköpum fyrir atvinnusvæðið hér á Akranesi.

Þetta framlag sýnir einnig hversu sterkt fyrirtæki Norðurál er og skiptir það miklu máli fyrir starfsmenn fyrirtækisins að finna fyrir þessum velvilja og þetta staðfestir ekki síður að starfsmenn búa við eins mikið atvinnuöryggi og hægt er á þessum óvissutímum.

Hægt er að lesa bréfið til starfsmanna með því að smella hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image