• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
04
Sep

Formaður í vinnustaðaheimsókn í Norðuráli

Í morgun fór formaður félagsins í vinnustaðaheimsókn til Norðuráls. Tilefni heimsóknarinnar var að fara yfir það hvað Norðurál hefur verið að gera í hinum ýmsu málum er tengjast öryggi starfsmanna. Formaður fór í steypuskála og skautsmiðju þar sem honum var sýnt hvað gert hefur verið í öryggismálum á liðnum mánuðum.

Ánægjulegt var að sjá að forsvarsmenn Norðuráls virðast leggja töluverðan fókus á öryggi starfsmanna þessi misserin enda skipta öryggismál gríðarlega miklu máli bæði fyrir starfsmenn og fyrirtækið sjálft.

Formanni var t.d. sýnt hvar ný handrið hafa verið sett til að afmarka hættuleg svæði ásamt hinum ýmsu öðrum atriðum sem eiga að leiða til aukins öryggis starfsmanna. Fram kom í máli forsvarsmanna fyrirtækisins að þegar kemur að öryggismálum þá séu verkefnin ærin og unnið sé nú eftir lista yfir atriði sem starfsmenn og forsvarsmenn telja að þurfi að bæta. Markmið fyrirtækisins er að reyna að koma sem flestum þessara atriða til betri vegar á sem skemmstum tíma.

Öryggismál skipta gríðarmiklu máli í verksmiðju þar sem hættur geta leynst víða og skemmst er að minnast alvarlegs slyss fyrir ekki svo löngu þegar starfsmaður missti hluta af fæti vegna þess að hann varð fyrir lyftara. Á þeirri forsendu er mikilvægt að starfsmenn og forsvarsmenn fyrirtækisins vinni eins vel og hægt er að því að bæta öryggi í verksmiðjunni enn frekar. Það var því afar ánægjulegt að sjá að til er aðgerðalisti um öryggismál sem nú er unnið af hörðum höndum við að vinna í.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image